Ég ætla að skrifa smá frásögn af minni upplifun í gærkvöldi. Ég skrifaði þessa sömu grein, eða allavega svipaða grein, í gærkvöldi en ófreskjan Hugi.is hefur borðað hana og skilaði hún sér því ekki.
-
Klukkan 15:40 hófst þessi stærsti fótboltadagur ársins; Íslenska landsliðið tekur á móti Ítalíu, þvílíkur stórlegur. Þegar ég gekk upp að strætóskýli með tveimur félögum mínum - Birni og Halldóri - hugsa ég með mér ‘Ef “strákarnir okkar” spila eins og þeim einum er lagið ættum við að geta gert jafntefli við þessa meistara. Vonandi verður þetta allavega ekki eins mikið rúst og í Englandi á dögunum’ Það er nefnilega svo skrítið, að þegar Íslenskt landslið stendur sig vel, þá eru leikmennirnir allt í einu orðnir “strákarnir okkar” - En þegar þeir standa sig illa, þá vill enginn neitt með þá hafa. Það er stórskemmtilegt að fylgjast með þessari þróun.
'115 er mættur á svæðið' kallaði Björn með sinni silfur röddu og hann hafði rétt fyrir sér. Björn var klæddur í bláan landsliðsbol og með ‘ÁFRAM ÍSLAND’ trefil. Þegar við gengum inn í eðalvagninn byrjaði strætóbílstjórinn, sem leit út eins og kona en talaði sem karl, með einhvern móral; ‘Haldið þið virkilega að við getum eitthvað á móti þessum vélum?’ sagði hún, og heldur áfram; “Við eigum eftir að tapa, og það með margra marka mun - og ég skal sko segja ykkur það drengir, að ef Ísland vinnur þá fáiði frítt heim; og rúmlega það. Ég skal gefa ykkur lengju af strætómiðum ofan á fría farið.' - Ég brosti og sagði ‘Ég tek þig á orðinu slútta’.
Við tókum 115 upp í Kringlu, þar sem við ætluðum að staldra aðeins við - skoða nokkra hluti, öskra ‘Áfram Ísland’ og fleira í þeim dúr. Við vorum ekki ýkja lengi í Kringlunni, og hófum göngu niður að Laugardalsvelli. Við komum að innganginum klukkan 16:32 og fórum bráðlega inn á leikvanginn. Við áttum sæti í B hólfi, P röð og mitt sæti var númer 12. Stutt bið hófst og tók ég þá upp myndavélina mína og fór að taka myndir. Það var alveg ótrúlega skemmtilegt að taka myndir af vellinum með 10-20 mínútna millibili og sjá hvernig sætin og stæðin fylltust. En þegar það var orðið leiðinlegt komu Sveppi og Auddi á svið og tónlistaratriðin byrjuðu. Nylon, Skítamórall, Kalli Bjarni, Í Svörtum Fötum og Jasmín(e?). Atriðin voru alveg ágæt, en ég gat ekki beðið eftir leiknum sjálfum.
-
Ljós kviknuðu, tónlist byrjaði, 20204 áhorfendur risu úr sætum og viti menn - leikmennirnir gengu inn á völlinn; allir brjáluðust. Ég stóð þarna og naut mín meðal þessa fólks. Þjóðsöngvar landanna byrjuðu og söng ég með báðum - ég lærði Ítalska þjóðsönginn í gegnum gervihnött með því að horfa á Formúluna, Ítalska boltann og EM/HM o.fl. í mörg mörg ár. Eftir stutta stund kom svo fallegasti þjóðsöngur heims; Íslenski söngurinn. Ég hef kunnað hann síðan ég var fóstur í móðurkviði og söng með eins og stórsöngvari. Eftir að söngvar landanna voru búnir áttu Ítalir að sparka boltanum frá miðjunni - en á sama tíma hófst svakaleg bylgja í nýju stúkunni og allir tóku þátt. Þessi sama bylgja lifði allan hringinn og rúmlega það.
Leikurinn byrjaði mjög vel - bæði lið börðust um boltann eins og heróín fíklar í leit að sprautu. Bæði lið áttu nokkur marktæk færi, en það kom mér skemmtilega á óvart hvað Íslensku mennirnir sýndu þeim Ítölsku ekkert eftir; og voru betri ef eitthvað var. Þegar 15 mínútur voru liðnar voru Ítalirnir orðnir pirraðir - en þeir vissu ekkert hvað var á leiðinni, því tveim mínútum síðar hleypur Þórður upp hægri kantinn og gefur sendingu fyrir utan teig Ítala á Gylfa Einarsson sem dúndrar á markið - Buffon, markmaður Ítala, ver boltann upp í loftið og á eftir honum kemur Eiður Smári - réttur maður á réttum stað - og klárar þetta. Íslendingar komnir yfir gegn stórliði Ítalíu og allir brjálast. Eftir mark Íslendinga urðu Ítalir virkilega pirraðir og ætluðu að jafna metin - en þrem mínútum, eða á 19. mínútu, fengu Íslendingar aðra frábæra sókn. Heiðar fékk góða sendingu inn á vítateig en skot hans var mislukkað. Knötturinn hafnaði í fæti varnarmanns Ítala og þaðan í stöngina og loks fyrir framan fætur Gylfa Einarssonar sem stóð í miðjum vítateignum og hamraði hann í netið og brjáluðust allir áhorfendur. Ég sagði sjálfur upp yfir mig ‘Hvað er í gangi!?’ og leit yfir stúkuna. Ég sá m.a. tvo dverga dansandi bera að ofan málaðir sem íslenski fáninn - hinn eina sanna Eggert Magnússon að dansa mambó - og Ásgeir S. var þarna með bros á vör.
Ítalirnir voru orðnir alveg ótrúlega reiðir og sást það vel þegar þeir brutu á Íslensku mönnunum - en þess má einnig geta að Íslensku mennirnir gáfu þeim ekkert eftir og man ég sérstaklega eftir því þegar Brynjar Björn hrinti Gattuso niður. Sjálfur hefði ég nú gefið honum spjald fyrir það, en Sænski dómarinn var ekki á því.
Í byrjun síðari hálfleik fór afmælisbarn dagsins, Birkir, út af og spilaði hann þarna sinn síðasta leik með landsliðinu. Allir klöppuðu fyrir honum og hljóp hann stoltur af vellinum. Ítalir gerðu fjórar breytingar á liði sínu og ætluðu að snúa vörn í sókn - en Íslenska liðið bakkaði aðeins. Íslendingarnir voru nú samt betri allan leikinn - miklu betri í fyrri hálfleik en liðin voru svipuð í seinni hálfleik. Í seinni hálfleik áttu Ítalir nokkur góð færi og þá sérstaklega hættulega aukaspyrnu undir lok leiksins en Hermann Hreiðarsson bjargaði á marklínu. Ítalir björguðu einnig einu sinni á marklínu.
Frábær leikur. Vonandi halda Íslendingarnir svona áfram - því ef þeir gera það þá eigum við eftir að komast á HM. Allir áhorfendurnir eiga pottþétt einhvern þátt í sigrinum og hvet ég því alla að mæta á alla heimaleikina í undankeppni HM. Og hvað mig varðar, þá fór ég ókeypis heim í strætó - alveg eins og strætóbílstjórinn hafði lofað mér.
-
Tvær greinar af mbl.is sem eru þess virði að skoða;
<a href=”http://www.mbl.is/mm/sport/frett.html?nid=109879 1“>Sigur Íslendinga á Ítölum vekur athygli</a>
<a href=”http://www.mbl.is/mm/sport/frett.html?nid=109880 8“>Íslenska landsliðið eins og borgarísjaki</a>
-
Og svo er hérna myndapakki sem ég tók sjálfur af leiknum - frábær myndapakki þó ég segi sjálfur frá :)
<a href=”http://hrannar.stuff.is/Landsleikur%20-%20myndir .rar“>MYNDAPAKKINN</a>
Og hér er annar sem sport.is á; <a href=”http://www.batman.is/ut.php?id=66966">Ich</a>
-
Vonandi var þetta ágæt grein.
Takk fyrir mig.