Patrik Berger virðist vera klár í slaginn. Hann skoraði tvö mörk í 4-1 sigri varaliðs Liverpool á Sheffield Wednesday í kvöld - bæði mörkin að sjálfsögðu með vinstri fótar skotum af löngu færi.
Lið Liverpool hafði mikla yfirburði, enda margir aðalliðsmenn í liðinu. Auk Bergers léku Pegguy Arphexad, Gregory Vignal, Djimi Traore, Igor Biscan, Gary McAllister, Danny Murphy, Vegard Heggem og Bernhard Diomede með liði kvöldsins. En Berger stal senunni og átti stórleik, mataði samherja sína á frábærum sendingum og átti nokkur góð færi auk markanna.
Berger skoraði fyrsta mark Liverpool eftir fjórtán mínútna leik með lágu vinstri fótar skoti utan teigs. Wednesday jafnaði tólf mínútum síðar en eftir níu mínútna leik í seinni hálfleik kom Danny Murphy Liverpool aftur yfir eftir undirbúning Bergers. Og eftir 67 mínútur kom Berger Liverpool í 3-1 með þrumuskoti efst í markhornið frá vítateigshorni. Þrettán mínútum fyrir leikslok skoraði svo John Miles fjórða mark Liverpool með fyrstu snertingu sinni.
Heggem og Berger léku báðir í 76 mínútur og komust óskaddaðir í gegnum leikinn.