Í ítölskum fjölmiðlum í gær var greint frá því að Michael Owen hefði ákveðið að leika með ítölsku liði næsta vetur. Í blaðinu var meira að segja tilvitnun í Owen þar sem hann sagði m.a. að hann þyrfti að bíða eftir því hvað Liverpool ætlaði að gera þar sem einnig hefðu komið tilboð í Fowler og hæpið yrði að Liverpool léti þá báða fara.
Þarna gengu ítölsku fjölmiðlarnir skrefi lengra en þeir ensku með því að hreinlega búa til viðtal við Owen sem aldrei var tekið. Það staðfesti Owen sjálfur í gegnum umboðsfyrirtæki sitt sem sendi frá sér svohljóðandi tilkynningu: “Við höfum talað við Micahel Owen í Albaníu og getum staðfesta að þessi tilvitnun er úr lausu lofti gripin.” Svo einfalt er það.
Það er merkilegt hvað oft hafa skotið upp kollinum sögusagnir um að Fowler eða Owen séu á leið til einhvers annars félags skömmu fyrir leiki gegn Manchester United. En eins og svo oft áður er engin ástæða til að taka slíkar sögur trúanlegar.
Fregnir herma að Liverpool sé nú í viðræðum við Owen um nýjan fimm ára samning en hann á tvö ár eftir af núgildandi samningi. Talið er að nýr samningur færi Owen um 60 þúsund pund í laun á viku en þetta hefur ekki fengist staðfest.
Poolari