Liverpool með 3 sigurleiki í röð? Hljómar ótrúlegt? Líklega afþví að þessir hlutir eru ekki að gerast, eða hvað?
Já það er nóg búið að gerast síðustu daga og lái ég gong ekkert að nenna ekki lengur að skrifa greinar, enda líklega ekki gaman þegar liðið mans fellur. Já Leeds eru víst fallnir og brunaútsalan að fara í gang aftur, Robinson til Arsenal, Smith til Ítalíu og Viduka í megrun. Vonandi fer ekki fyrir þeim eins og Sheffield Wednesday sem fyrir rúmum áratug voru alveg ágæt lið í efstu deild en eru núna um miðja 2. deildina, það er nefnilega ekki alltaf nóg að vera “stórklúbbur” (Sheffield fá enþá rúmlega 25 þúsund aðdáendur á hvern leik, en risastórir skuldabaggar vegna offjárfestinga og deildarfalla valda því að þeir eru ennþá í bullandi tapi). Leeds stjórar lofa skjótu flugi upp í efstu deild aftur, en það er ekkert öruggt í þeim efnum.
Chelsea tryggðu sér í dag öruggt sæti í fyrstu umferð meistaradeildarinnar næsta haust, en það er nú varla nema sárabót eftir jafnteflið á móti Monaco á miðvikudaginn, Eiður og félagar voru í draumaheiminum í 2 mínútur í stöðunni 2-0 en Monaco menn skoruðu nokkuð umdeilt mark, Morientes skoraði annað og draumurinn var úti. Menn hafa nú grátið af minna tilefni…
Ætli Real séu ekki enþá að naga sig í handarbökin að hafa lánað hann frá sér?
Liverpool vann síðan nokkuð sannfærandi sigur í dag og þar sem Aston Villa gerði bara jafntefli í dag þá eru Liverpool núna búnir að tryggja sér sæti í einhverri evrópukeppni næsta haustið. Ef Newcastlemenn síðan ná 4 stigum útúr næstu 2 leikjum sínum þá er spennandi úrslitaleikur næsta laugardag, mæting á Anfield klukkan tvö. Reyndar dugir Newcastle 3 stig úr þessum 2 leikjum til að eiga séns á 4. sætinu, en þeir hafa eins og staðan er í dag nokkuð lakara markahlutfall en Liverpool (+12 á móti +18). Sem betur fer er enginn Michael Thomas í liði Newcastle svo ég tel að 4 stig séu nauðsynleg fyrir lið Newcastle. Þessi “góða” staða Liverpool er einmitt tilkomin vegna þess að Liverpool hefur unnið 3 leiki í röð og hafa ekki fengið á sig mark í vel rúmar 300 mínútur. Ótrúlegir hlutir geta semsagt gerst.
Fall Wolves og Leicester kom fáum á óvart, vonandi finnur Jóhannes Karl sér eitthvað lið sem finnur not fyrir hæfileika hans. Aston Villa menn hafa aftur á móti komið mörgum á óvart og sérstaklega þá stjóranum David O´Leary sem bjóst við fallbaráttu í byrjun tímabils. Evrópudraumurinn er þó að fjara út hjá þeim, en ef Newcastle standa sig ekki þá gæti O´Leary komist á ný í evrópukeppni, en núna fær hann engan séns á að gera liðið sitt gjaldþrota þar sem eigandi Villa Doug Ellis er þekktur fyrir ótrúlega nísku (nú eða framsýni og gott peningavit).