Sven Göran Erikson lét hafa eftir sér fyrir um mánuði að það væri eiginlega bara um tvo að velja í staðinn fyrir Rio Ferdinand í vörn landsliðsins í sumar. Það væru Woodgate og John Terry. Þetta var fyrir leikinn gegn Portúgal og þar datt nú reyndar Ledley King óvart inn í hópinn og svo beint inn í liðið og stóð sig manna best. Eftir leikinn sagði Erikson að King hefði heldur betur minnt á sig og væri kandídat þarna í vörninni. Nokkuð ljóst er að Sol Campbell verður þarna og það er að verða ljóst að Woodgate verður varla í byrjunarliðinu, hann er alltaf meiddur kallanginn og getur ekkert sýnt sig. Hann er þó að mínu mati einn besti varnarmaður deildarinnar, enginn turn og ekkert brjálaður nagli en les þetta allt afar vel og kann boltann betur en margir. Terry er líklegur, hann er stór, nagli og algjör klettur en er kannski einum of líkur Campbell. Southgate sem var í vörninni á móti Portúgal er auðvitað reynslubolti og verður pottþétt í hópnum.
Ugo Ehoigu (nokkurnveginn svona) hefur alltaf verið inní myndinni en hann hefur verið að gera mistök og svo er maðurinn ógeðslega grófur og mér finnst hann ekki eiga heima þarna nema sem varaskífa.
Wes Brown, hin upprennandi stjarna, hefur heldur betur misst sinn séns held ég og ekki síst eftir þessa fáránlegu vítaspyrnu sem var hér rétt áðan á móti Fulham. Hann hefur nú ekki verið að standa sig að undanförnu. Vörnin í lamasessi eftir að Rio fór og ekki síst eftir að Silvestre meiddist.
Nistelrooy jafnaði nú strax aftur. Hann er ótrúlegur striker, einn sá besti í heimi. Betri en Henry en Henry er samt betri alhliða leikmaður og þetta eru tveir á topp tíu í dag að mínu mati.
Hverjir aðrir koma svo til greina? Eru einhverjir Englendingar að gera það ofsa gott?
Svo er nú vináttuleikur gegn Svíum á dagskránni þann 31. mars. Þá getur hann skoðað fleiri leikmenn og talað er um gæja eins og Alan Thompson hjá Celtic og Jermain Dafoe hjá Tottenham. Erikson segir nú samt að hann sé nú eiginlega kominn með hópinn sem hann ætlar að fara með á Evrópukeppnina.
Það er þokkalegt úrval af mönnum og td nokkrir góðir hjá Chelsea. Verst að þeir fá ekkert að spila og nú vill td Joe Cole fara, maður sem sterklega er inn í myndinni. Hann hefur ekki spilað einn heilan leik í vetur. EKKI EINN heilan leik!!!!!
Svo vona ég innilega að Alan Smith verði þarna með. Ekki nóg með að hann sé svaka striker, þá finnst ekki duglegri maður í enska bolta. Hann myndi sóma sér vel á miðjunni enda á hann 95% af skallaboltum og fer í alla bolta. Endurtek, fer í alla bolta. Nota bene, ég er Leedsari og veit alveg hvaða hug margir bera til hans. Sanniði bara til, hann verður stjarna.
Ég sé hann fyrir mér sem annan Scholes, næstfremstur. Getur skorað og er svona vinnuhestur sem leggur upp mörkin. Þeir verða örugglega báðir í hópnum.
Og það nýjasta er að Erikson segist ætla að vera þjálfari landsliðsins áfram, líka eftir EM.
Annars er Baggalútur alltaf kl fimm á rás tvö núna. Þeir áttu einn snilldarskets um daginn. Læt hann fljóta með:
Þjálfarinn er að tala við liðið og er að berja þá saman:
Jæja, strákar. Ég veit nú ekkert ofsalega mikið um þetta lið sem við spilum við en ef við spilum okkar leik þá tökum við þessa kalla.
Framherjinn þeirra, þessi Ronaldó er að vísu nokkuð fljótur og fylginn sér en við pössum hann vel. Miðjan er ekkert sérstök, það er þessi Bekkhamm sem er nú linur og við tökum hann. Svo er þessi Sídane sem er harðfullorðinn og við höfum engar áhyggjur.
Já strákar, Valur Reyðarfirði lætur sko enga spanjóla slá sig út út evrópukeppninni.
Og Gunni þú ert í marki, Siggi var í marki á móti Hetti á laugardaginn!