Silvio Berlusconi kallaði hann á teppið eldsnemma í morgun og tjáði honum að hans þjónustu væri ekki lengur óskað hjá félaginu.
Það kom yfirlýsing frá Milan í morgun þar sem fram kom að Zaccheroni hefði verið rekinn og að félagið þakkaði honum fyrir þjónustuna undanfarin þrjú ár.
Faðir Paolo Maldini, Cesare Maldini sem er fyrrum landsliðsþjálfari Ítala, mun stýra liðinu til enda tímabilsins og mun njóta traustrar aðstoðar Mauro Tassotti. Svo má fastlega búast við því að Fatih Terim taki við næsta sumar, en það er óleyfilegt fyrir hann að taka við liðinu fyrr en þá.
Annars skiptir litlu máli hver tekur við núna þar sem Milan er úr leik í öllu og því ekki seinna vænna að fara að huga að næsta tímabili.
Það var fastlega búist við þessu eftir að Milan datt út úr Meistaradeildinni í gær, en þeir voru þó ekki margir sem töldu að Zac yrði rekinn strax morguninn eftir.