Aston Villa gekk í gær frá kaupum á vængmanninum Nolberto Solano. Solano lék áður með Newcastle, og þurfti Villa að borga 1.5 milljónir punda fyrir Perúmaninn. Solano hafði verið hjá Newcastle frá 1997, en hafði ekki verið fastamaður í liðinu á þessu tímabili. David O'Leary, stjóri Aston Villa, hefur verið í töluverðum vandræðum með að manna liðið hjá sér vegna meiðsla og leikbanna. Solano ætti því að vera góð viðbót í lið hans.
Jimmy Floyd Hasselbaink hefur verið kærður fyrir af enska knattspyrnusabandinu fyrir að gefa Mark Hotte, leikmanni Scarbrough, olnbogaskot í andlitið. Atvikið átti sér stað í bikarleik Chelsea og Scarbrough, en báðir leikmenn lágu á vellinum eftir samstuð þegar atvikið átti sér stað. Verði Hasselbaink fundinn sekur getur hann átt yfir höfði sér leikbann og fjársektir.
Belgíski varnarjaxlinn Daniel Van Buyten er á leið til Manchester City frá franska liðinu Marseille. Van Buyten hefur spilað frábærlega upp á síðkastið, og hefur verið orðaður við ýmis stórlið, m.a. nágranna Manchester City á Old Trafford. Einnig hefur verið sagt að Newcastle hafi verið tilbúnir að borga 12 milljónir evra fyrir leikmanninn fyrir ári síðan, áður en þeir keyptu Jonathan Woodgate. Van Buyten kom til Englands í dag og gekk frá lánssamningi út tímabilið, sem mun svo væntanlega enda með varanlegum samningi.
Chelsea gengu í dag frá kaupum á Scott Parker frá Charlton fyrir 10 milljónir punda. Charlton höfðu áður hafnað tveim tilboðum frá Chelsea, en sáu að þeir gátu ekki haldið Parker á The Valley gegn vilja hans. Þar sem Chelsea náði að ganga frá kaupunum fyrir mánaðamótin geta þeir skráð hann til leiks í meistaradeildina. Auk þess að þurfa að borga 10 milljónir fyrir miðjumanninn, þurfti Chelsea að framlengja lán á framherja sínum Carlton Cole út næsta tímabil. Cole var í láni hjá Charlton, en það lán átti aðeins að gilda út þetta tímabil.
Jose Antonio Reyes, sem gekk nú á dögunum til liðs við Arsenal frá Sevilla á Spáni, segist ekki vera undir neinni sérstakri pressu þrátt fyrir að hafa 20 milljón punda verðmiða um hálsinn. Reyes er dýrasti leikmaður sem Arsenal hefur keypt, en þar á undan hafði Sylvain Wiltord verið dýrasti leikmaður Arsenal. En hann kostaði 13 milljónir punda á sínum tíma. Reyes segist hlakka til að fá að spreita sig gegn Manchester City á sunnudaginn. En hugsanlega getur hann þurft að bíða lengur þar sem það er möguleiki á að einns leiks bann í Spænsku deildinni flytjist yfir í Ensku deildina.