Alan Shearer 9 Alan Shearer
Sóknarmaður
Fæddur: 13.8.1970
Staður: Newcastle
Hæð: 183 cm
Þyngd: 79 kg
Deildarleikir/Mörk :
1987-88 Southampton 5/3
1988-89 Southampton 10
1989-00 Southampton 26/3
1990-91 Southampton 36/4
1991-92 Southampton 41/13
1992-93 Blackburn 21/16
1993-94 Blackburn 40/31
1994-95 Blackburn 42/34
1995-96 Blackburn 35/31
1996-97 Newcastle 31/25
1997-98 Newcastle 17/2
1998-99 Newcastle 30/14
1999-00 Newcastle 37/23
2000-01 Newcastle 19/5
2001-02 Newcastle 37/23
2002-03 Newcastle 35/17
Alan Shearer
Það fer ekki á milli mála að Alan Shearer er kóngurinn í Newcastle. Það varð hreinlega allt vitlaust á Tyneside þegar fréttist að kappinn væri á leið til liðsins og síðan hefur hann verið goð stuðningsmannanna. Það dylst engum sem heimsækir St James’ Park að þar er þessi leikmaður æðri öllum öðrum og er það kannski engin furða. Hann er einfaldlega meistari í boltanum.
Ungur að árum var Shearer hjá Wallsend Boys Club. Hann reyndi fyrir sér hjá Newcastle en ekki voru menn naskir að lesa hæfileikana því hann var settur í mark. WBA, Sunderland og Man City höfnuðu honum einnig og svo fór að hann mátti fara alla leið suður til Southampton til að hefja ferilinn.
Shearer hóf að leika með Dýrlingunum árið 1987. Þar lék hann 118 leiki og gerði 23 mörk. Hann sló rækilega í gegn í fyrsta deildarleik sínum því þá skoraði hann þrennu gegn Arsenal, aðeins 17 ára gamall. Hann var seldur til Blackburn á 3,6 milljónir punda sumarið 1992 og þar fóru hlutirnir að ganga fyrir alvöru. Með Blackburn lék hann 138 leiki og skoraði 112 mörk sem hlýtur að teljast einstakt afrek. Shearer meiddist að vísu illa í árslok 1992 en mætti funheitur til leiks á næsta tímabili og setti 31 mark.
Sumarið 1994 kom Chris Sutton til Blackburn og þeir Shearer reyndust hreint frábærir saman. Það var ekki síst góðu samstarfi þeirra og mörkum kóngsins að þakka að Blackburn varð enskur meistari árið 1995. Þá gerði Shearer 34 mörk og jafnaði úrvalsdeildarmetið sem Andy Cole setti með Newcastle ári fyrr. Shearer var valinn leikmaður ársins, bæði af kollegum sínum í deildinni og blaðamönnum. Hann varð fyrstur til að rjúfa 100 marka múrinn í úrvalsdeild og fyrstur til að gera yfir 30 mörk þrjú tímabil í röð, síðan Jimmy Greaves var og hét.
Shearer varð dýrasti knattspyrnumaður heims þegar Kevin Keegan keypti hann frá Blackburn á 15 milljónir punda þann 29. júlí 1996. Keegan gerði eins og menn vita margt gott fyrir Newcastle en margir telja að þetta hafi verið hans besta verk. Það gerði svo komu kóngsins ennþá sætari þegar fréttist að hann hefði hafnað Manchester United og kosið að koma heim.
Geordie drengurinn Shearer stóð svo sannarlega undir nafni á sínu fyrsta tímabili, þrátt fyrir að meiðsli settu strik í reikninginn. Hann lék fyrst með gegn Everton á útivelli þann 17. ágúst 1996 en alls urðu leikirnir 31 og mörkin 25. Shearer var í annað sinn valinn leikmaður ársins af kollegum sínum í deildinni.

Næsta tímabil varð hins vegar hreinasta martröð. Shearer meiddist illa í æfingaleik um sumarið og gat ekkert leikið fyrr en um miðjan janúar. Deildarmörkin urðu aðeins tvö þetta tímabil en betur gekk í bikarnum. Þar gerði Shearer fimm mörk og átti stærstan þátt í að liðið fór alla leið í úrslitin.
Eftir Euro 2000 ákvað Shearer að leggja landsliðsskónum og einbeita sér að því að leika með Newcastle. Hin alvarlegu meiðsl höfðu óneitanlega sett mark á framherjann og ljóst að eitthvað yrði undan að láta. Shearer lék 63 landsleiki og gerði í þeim 30 mörk. Fyrst lék hann þann 19. febrúar 1992 gegn Frökkum á Wembley. Hann á einnig að baki 11 leiki og 13 mörk með U-21 landsliðinu.
Shearer meiddist enn illa á tímabilinu 2000/2001 og náði aðeins að leika 23 leiki fyrir Newcastle. Hann gekkst undir tvær aðgerðir á hné, þá fyrri í desember og þá seinni hjá Richard Steadman í Bandaríkjunum í maí. Margir töldu að ferill hans kynni að vera á enda en kóngurinn var ekki á því að gefast upp. Hann missti að vísu af byrjun tímabilsins 2001/2002 en var mættur aftur til leiks gegn Sunderland á St James’ þann 26. ágúst. Kom þá inná sem varamaður og fékk móttökur sem seint gleymast, hver einasti kjaftur stóð á fætur og hyllti kónginn. Var kominn í byrjunarliðið í næsta leik og gerði auðvitað tvö mörk, gegn Middlesbrough á Riverside.
Shearer hélt áfram að raða inn mörkunum og tímabilið varð frábært hjá honum. Skoraði tvö mörk í leik gegn Ipswich í Worthington bikarnum og náði þar með 100. marki sínu fyrir Newcastle. 200. úrvalsdeildarmarkið kom í leik gegn Charlton á St James’ þann 20. apríl 2002 og 300. mark kappans kom í leik gegn Blackburn þann 19. október sama ár. Shearer gerði svo sitt 100. úrvalsdeildarmark fyrir Newcastle í leik gegn Man United á Old Trafford þann 23. nóvember 2002. Frábært mark beint úr aukaspyrnu en því miður tapaði Newcastle leiknum illa.
Shearer hefur á ferli sínum fengið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir einstaka frammistöðu. Sumarið 2001 var hann á lista Bretadrottningar yfir þá sem fengu OBE orðu fyrir vel unnin störf. Hann var valinn leikmaður ársins 2001/2002 í Norðaustur Englandi og fékk einnig viðurkenningu fyrir besta markið, mark sem kom í heimaleiknum gegn Aston Villa. Hann vann gullskóinn þrjú ár í röð, 1995-1997 og einungis hin vafasama markanefnd kom í veg fyrir að hann fengi þann fjórða 2002.
Þegar tímabilinu 2001/2002 lauk hafði Shearer gert 120 mörk í 221 leik fyrir Newcastle sem er auðvitað frábær árangur. Hann heldur enn sínu striki og virðist eiga nóg eftir. Skoraði að eigin mati besta mark sitt á ferlinum, þegar Newcastle vann Everton á St James’ í byrjun desember 2002 og gerði alls 25 mörk á tímabilinu. Meiddist undir lokin og gat því ekki náð að leika alla deildarleikina. Fékk fjöldann allan af viðurkenningum þegar haldið var upp á tíu ára afmæli úrvalsdeildarinnar. Var heiðraður fyrir að vera markahæsti leikmaðurinn fyrstu tíu árin, var valinn í úrvalslið heimamanna og síðar í úrvalslið úrvalsdeildar og til að kóróna allt saman var hann valinn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar fyrstu tíu árin. Var einnig valinn leikmaður ársins í Norðaustur Englandi. Setti fjöldann allan af metum og náði til dæmis að komast upp fyrir Wyn Davies sem markahæsti leikmaður Magpies í Evrópumótum.

Margir telja að Shearer verði næsti stjóri Newcastle. Áhangendurnir vilja hins vegar að hann einbeiti sér enn um sinn að því að ergja varnarmenn andstæðinganna. Krafturinn er enn nægur því fáir sóknarmenn eru líkamlega sterkari en Shearer. Hann er geysilega öflugur í loftinu enda skorar hann mikið af glæsilegum skallamörkum. Annars er óþarft að fjalla frekar um snilld kóngsins enda verður henni seint með orðum lýst. Mætið bara á St James’ Park, sjáið og sannfærist: Það er bara einn kóngur og hann býr í Newcastle.