Frábær byrjun Erikson
Það er ekki hægt að segja annað en Sven Göran Erikson hafi byrjað frábærlega með enska landsliðið. 3-0 sigur gegn mjög sterku liði Spánar og það virtist engu máli skipta hverja Erikson setti inná allir stóðu sig vel. James og Martyn skiptu með sér hálfleikum í markinu og stóð Martyn sig sérlega vel, en James þurfti aldrei að sýna hvað í sér býr. Það kemur fyrst og fremst vegna frábærs varnarleiks hjá Englendingum, og það sérstaklega í fyrri hálfleik þegar Sol Campell og Rio Ferdinand héldur Urzaiz og Raul algjörlega niðri. Phil Neville og nýliðinn Chris Powell voru mjög “solid” í bakvörðunum. Ball kom inn fyrir Powell og skilaði sínu ágætlega í síðari hálfleik. Miðjan hjá Englendingum í fyrri hálfleik átti lítið í þá spænsku, en í síðari hálfleik fóru þeir að ráða ríkjum og vekur það athygli þar sem Beckham, Butt og Scholes var skipt út fyrir Lampard, McCann og Heskey sem spilaði á hægri kannti. Hvorki Butt né Beckham náðu sér á strik og Scholes var þeirra hættulegasti maður í fyrri hálfleik ásamt Barmby. Með tilkomu Heskey á hægri kanntinn kom meiri hraði og styrkur í miðjuna og fannst mér hann frábær í þessari stöðu sem hann spilar að jafnaði ekki fyrir Liverpool. Sóknarmennirnir Andy Cole og Michael Owen skiluðu sínu vel þó þeim tækist ekki að skora, en mér finnst að það mætti æfa Owen mikið í móttöku á boltanum ef hann á einhvern tíman að verða eins og góður og sumir halda að hann sé. Í heild spilaði enska liðið mjög vel og átti sigurinn vissulega skilið en Spánverjar sköpuðu sér varla nein færi nema það að Martyn varði víti frá Moreno í stöðunni 3-0. Leikurinn fór reyndar hægt af stað og voru Spánverjar meira með boltan fyrsta hálftíman og komust aldrei í gegnum mjög sterka vörn Englands með Rio og Campell í miðvörðunum.