Mig langar til þess að skrifa greinar um Íslendingana sem leika í ensku úrvalsdeildinni og vil ég byrja á glókollinum og fyrirliða íslenska landsliðsins og leikmanns Chelsea, Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári fæddist í Reykjavík þann 15 september 1978. Hann vakti strax athygli þegar hann var ungur að árum og var greinilegt að hann mundi feta í fótspor pabba síns sem er einmitt Arnór Guðjohnsen, einn besti knattspyrnumaður sem Íslendingar hafa átt. Eiður byrjaði sinn feril hjá Reykjavíkur liðinu Val. Frá Val hélt hann til Hollands og spilaði með PSV Eindhoven. Aðeins 17 ára gamall spilaði hann með ekki lakari knattspyrnumanni en honum Ronaldo sem er einn af bestu framherjum heims um þessar mundir. Ferill hans hjá PSV var stuttur því hann lenti í alvarlegum meiðslum sem urðu til þess að hann var frá keppni í heilt ár. Hann hafði vakið áhuga hjá nokkrum liðum og Bolton var eitt þeirra. Bolton voru staddir í 1. deildinni á Englandi á þessum tíma og tóku þeir áhættu með því að fá hann til liðs við sig. En Eiður endurgalt þeim greiðann og skoraði meira en 20 mörk fyrir félagið og stór félög á borð við Chelsea sýndu áhuga sinn á honum.
Það var svo árið 2000 þegar Eiður var aðeins 22 ára þegar Lundúnaliðið Chelsea keypti hann og vakti það mikla athygli hér á klakanum. Hann skrifaði undir samning hjá liðinu og umboðsmaður hans er einmitt faðir hans, Arnór Guðjohnsen. Frumraun Eiðs með Chelsea var þann 13 ágúst 2000 á móti Manchester United í Góðgerðarskildinum sem heitir reyndar núna Samfélagsskjöldurinn. Ekki slæmt það að byrja sinn feril hjá Chelsea á móti Manchester United. En Eiður hefur sýnt það og sannað með Chelsea að hann er besti íslenski knattspyrnumaðurinn eins og er. Hann skoraði grimmt leiktíðina 2001/2002 en í fyrra var hann ekki í nægilega góðu formi og oft var hann látinn sitja á tréverkinu. Hann skoraði svo glæsilegt mark á móti Leeds í fyrra sem örugglega allir muna eftir, hjólhestaspyrnan. Þetta mark var eitt það flottasta í ensku úrvalsdeildinni.
Hann lenti í leiðindaveseni í fyrra útaf spilafíkn en hann náði að vinna sig útúr henni. En eftir að rússinn, Roman Abramovich keypti Chelsea og fjárfesti í leikmönnum eins og Adrian Mutu og Hernan Crespo er gríðarleg samkeppni um senterastöðurnar. En Eiður virðist vera í gríðarlega góðu formi um þessar mundir (ætli æfingarnar með Sveppa hafi borið árangur ? ;) og ætti hann alveg að geta skákað þessum “stóru” köllum.
Það er ekki meira í bili en takk fyrir mig.
kv. Geithafu