Jæja, komið er að síðustu fjórum leikjum okkar Valsmanna í Landsbankadeildinni í sumar. Uppskeran hefur verið heldur rýr, 16 stig í 14 leikjum en greinileg batamerki eru þó á liðinu, sérstaklega vörninni. Guðni Rúnar og Ármann Smári eru allir að koma til og eru farnir að minna mann á hvernig þeir voru í fyrra (að vísu í lakari deild). Að mínu mati eru Dáni og Bjössi búnir að vera langmestu menn Vals í sumar og ótrúlegt að sjá Dána kallinn, maðurinn er að gefa sig allan í þetta og ég veit ekki hvort ég á að gráta yfir því að Bolvíkingur sé sá sem er með mesta Valshjartað í þessu liði ásamt auðvitað Bjössa sem ekki þarf að hafa mörg orð um.
Næsti leikur er upp á Akranesi og ætlar Knattspyrnudeild Vals að bjóða upp á rútu og er það vel. Ekki man ég eftir því að áhuginn á Val hafi verið það mikill á undanförnum árum að rútuferðir hafi verið farnar frá Hlíðarenda en það er raunin í dag og hvet ég alla Valsmenn að kíkja á www.valur.is og sjá auglýsingu þar. Við þurfum a.m.k. stig í þessum leik og helst auðvitað þrjú stig en ljóst er að gríðarlega erfitt verður að fara upp á Skaga að næla í eitthvað. Dáni títtnefndur, Óli markvörður og Ellert Jón hljóta þó að vera extra hungraðir í þeim leik sem og auðvitað Láki sjálfur sem eyddi nokkrum árum þarna uppfrá.
Síðan koma tveir heimaleikir í röð og það engir smá leikir, báðir 6 stiga leikir gegn KA fyrst og svo Fram. Menn verða að mæta á þessa leiki til að styðja strákana sérstaklega í ljósi þess að síðasti leikurinn verður upp í Árbæ gegn Fylki og það verður ekkert grín. Stuðningsmenn Vals hafa tekið við sér í Þróttara-leiknum og KR-leiknum og gaman að sjá trommu-sláttarana mæta og vonandi mæta þeir á síðustu 4 leikina líka.
Valsmenn mætum allir og styðjum liðið okkar í baráttunni um sæti í Úrvalsdeild!