AC Milan með tilboð í Beckham
Samkvæmt ítalska íþróttadagblaðinu Corriere dello Sport hefur AC Milan enn ekki gefist upp á að fá David Beckham, leikmann Manchester United, til félagsins. AC Milan hefur tvívegis reynt að fá leikmanninn til sín á síðustu vikum en í bæði skiptin verið hafnað. Í blaðinu segir að forráðamenn ítalska liðsins séu vongóðir um að hinn nýi stjórnarformaður United, Peter Kenyon, muni íhuga kauptilboðið en á dögunum hafnaði United 4,8 milljörðum í Beckham. Beckham, sem er 25 ára gamall, á þrjú ár eftir af samningi sínum við enska félagið.