
Margir töldu að þegar Smicer var beðinn um að láta 7-una af hendi við komu Harry Kewells yrðu dagar hans taldir á Anfield. Þess í stað hefur kappinn brett upp ermarnar, tekið við treyju númer 11 og viðurkennir sjálfur fúslega að 7-an hafi ekki reynst honum happadrjúg.
Smicer hefur sýnt það og sannað það sem af er undirbúningstímabilinu að hann á fullt erindi í liðsmannahóp Liverpool. Nýtt númer á bakinu hefur gefið honum tækifæri til að endurreisa feril sinn hjá Liverpool og kannski spilar koma Harry Kewells stærri þátt en margan grunar. Það er vel þekkt staðreynd að lið kaupa leikmenn ekki aðeins til að njóta krafta þeirra sjálfra, heldur einnig til að auka samkeppni um sæti í liðinu.
Það verður spennandi að sjá hvernig uppstilling verður fyrir valinu hjá Liverpool á komandi tímabili og jafnframt hvort Smicer verður þar á meðal.