Bernard Diomede
Bernard Diomede
Núna í vikunni var tilkynnt að Bernard Diomede myndi ganga til liðs við franska liðið Ajaccio sem hefur aðsetur á eyjunni Korsíku. Bernard lék sem lánsmaður með liðinu seinni hluta síðustu leiktíðar og gekk vel. Núna er það sem sagt frágengið að Bernard mun ílengjast á Korsíku.
Heimsmeistarinn kom til Liverpool sumarið 2000 en fékk aldrei raunverulegt tækifæri til að sýna hvað hann gat. Meiðsli komu á slæmum tíma í nokkur skipti. Samt fannst mörgum að Bernard hefði átt skilið að fá fleiri tækifæri í aðalliðinu. Ekki óeðlilegt miðað við að hann hafði getið sér gott orð í Frakklandi og leikið með franska landsliðinu. Hann lék nokkra leiki með landsliðinu framan af Heimsmeistarakeppninni í Frakklandi 1998 og telst því meðal heimsmeistaranna frá því sumri.
Nú er Bernard á braut. En samt hefði verið gaman að sjá hann reyna sig með aðalliðinu svo hægt hefði verið að dæma um hver geta hans var og er í raun og veru. Allir verðskulda að fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Það var þó ekki nein uppgjöf hjá Bernard í vetur og hann lagði sig allan fram. “Ég er alltaf síðastur til að yfirgefa Melwood Ég hef ekki þann hátt á til að ganga í augun á fólki. Ég geri þetta vegna þess að ég veit að það kemur að því einn góðan veðurdag að ég fæ tækifæri til að leika. Annað hvort fyrir Liverpool eða eitthvað annað félag.” Félagið heitir Ajaccio.
Fæðingardagur: 23/01/1974 í Guadeloupe.
Fyrri lið: Auxerre.
Leikir fyrir hönd Liverpool: 5.
Landsleikir: 8.
Eftirminnilegasta atvik með Liverpool: Hin snilldarlega hjólhestaspyrna gegn Sunderland, haustið 2000, sem fór greinilega inn fyrir marklínuna. Kannski hefði gengið betur ef línuvörðurinn hefði dæmt boltann inni.