
Liverpool sótti um inngöngu í ensku deildarkeppnina en var hafnað og léku því í Lancashire-héraðsdeildinni til að byrja með. Þann 1. september árið 1892 lék Liverpool AFC sinn fyrsta leik á Anfield gegn Rotherham í vináttuleik. Annálar greina frá því að John Houlding hafi tekið upphafsspyrnuna í leiknum. Liverpool vann 7-1 og að sjálfsögðu var það Skoti Malcolm McVean að nafni sem skoraði fyrsta mark félagsins snemma leiks. Völlurinn tók um 20.000 áhorfendur en það var frekar tómlegt um að litast á fyrsta heimaleik Liverpool því aðeins 100 manns sáu sér fært að mæta á staðinn en 10.000 áhorfendur komu sér fyrir sama dag á Goodison og horfðu á Everton. Tveimur dögum síðar lék Liverpool fyrsta kappleik sinn í Lancashiredeildinni fyrir framan 200 áhorfendur. Andstæðingarnir voru Higher Walton og aftur vann Liverpool stórsigur 8:0. Allir leikmennirnir sem léku leikinn fyrir hönd Liverpool voru skoskir ef ættfræðin hefur ekki brugðist heimildarmönnum. Frábær frammistaða þessa nýstofnaða liðs spurðist út. Það var varla að þeir Houlding og McKenna trúðu sínum eigin augum þegar 3.000 áhorfendur mættu á Anfield 10. september er Liverpool bar sigurorð af Stockport og fór á topp deildarinnar. Menn höfðu verið efins um að nægur áhugi væri í borginni til að halda uppi tveimur liðum en Liverpool fór mikinn í leikjum tímabilsins og vann auðveldan sigur í Lancashiredeildinni. Hápunktur leiktíðarinnar var án efa fyrsta viðureign Everton og Liverpool sem fram fór í Liverpool Senior-bikarkeppninni. Mikill skjálfti var á báðum vígstöðvum fyrir leikinn enda mikill heiður í húfi. Augljóslega var skjálftinn heldur meiri í herbúðum Everton því að forráðarmenn félagins tóku þá ótrúlegu ákvörðun að setja á tilgangslausan leik gegn smáliðinu Renton sama dag. Þannig að ef Liverpool myndi fara með sigur af hólmi þá sýndu sögubækurnar fram á það að sökum leikjaálags þá gat Everton ekki stillt upp sínu sterkasta liði gegn Liverpool og sigurinn myndi því vera lítils virði. Leiknum lauk með 1-0 sigri Liverpool og var harkan mikil í leiknum. Eftir leik mótmæltu leikmenn Everton gríðarlega vegna þess sem þeir töldu vera þeim óhliðholla dómgæslu. Vegna æsings leikmanna og forráðamanna Everton var ekki hægt að hafa verðlaunaafhendingu að leik loknum og fengu leikmenn Liverpool bikarinn ekki fyrr en á næsta heimaleik. John hafði gaman af og sagði skemmtilegt að sjá gamlan kunningja að nýju! Átti hann þar við bikarinn góða því Everton hafði unnið hann á meðan hann var í stjórn þar á bæ.
Vera Liverpool í Lancashiredeildinni stóð aðeins yfir í eitt tímabil. Knattspyrnusambandið ákvað að fjölga liðum í 2. deild úr 12 í 15 og McKenna sá gullið tækifæri til að Liverpool gæti loksins keppt á landsvísu. Félagið átti ekki fúlgur fjár enda meðaláhorfendafjöldi á Anfield rétt undir 2.000 manns. McKenna sendi símskeyti til London án þess að fá til þess tilskilin leyfi frá stjórn Liverpool: “Liverpool sækir um þátttökurétt í 2. deild” og skrifaði undir Barclay sem var opinber framkvæmdastjóri liðsins. Það hefur því komið William E Barclay talsvert á óvart er honum barst skeyti frá Knattspyrnusambandinu: “Liverpool varð fyrir valinu. Komið til London á morgun klukkan þrjú til að ákveða leikjaniðurröðun”. John McKenna sannfærði stjórnarmenn um að þetta væri rétta leiðin og fór til London sem fulltrúi félagsins til þess að ganga frá formsatriðum.
Liverpool lék enn í bláum og hvítum peysum og dökkum buxum þegar það lék sinn fyrsta deildarleik í sögu félagsins á útivelli gegn Middlesbrough Ironopolis þann 2. september 1893. Malcolm McVean kom Liverpool á bragðið og Joe McQue bætti öðru marki við með frábæru langskoti. Liðið var skipað eftirtöldum leikmönnum: McOwen, Hannah, McLean, Henderson, McQue, McBride, Gordon, McVean, M. McQueen, Stott og H. McQueen. Fyrsti heimaleikurinn í deildinni fór fram á Anfield Road 9. september gegn Lincoln og Liverpool byrjaði vel með 4:0 sigri fyrir framan 5.000 áhorfendur. Liverpool var ekki stöðvað þetta tímabil og hreppti efsta sæti 2. deildar án þess að tapa leik sem var einstakt afrek. En reglurnar sögðu til um að ef liðið vildi komast í 1. deild þá þyrfti það fyrst að leggja af velli neðsta lið 1. deildar sem var í þessu tilviki Newton Heath sem var betur þekkt síðar sem Manchester United. Liverpool vann 2-0 á Anfield og leiðin upp í 1. deildina var greið. Árið 1894 var byggð stúka á Anfield Road þar sem núna er aðalstúkan, Main Stand. Þessi stúka þótti glæsileg og stóð lengi. En ekki var öll aðstaða til fyrirmyndar því að enn voru ekki komin búningsherbergi við völlinn. Leikmenn skiptu um föt á Sandon hótelinu sem var í um eitthundrað metra fjarlægð frá Anfield og þaðan gengu leikmenn til leiks meðal áhorfenda sem voru á leið á leikinn.