Jæja núna langar mig til þess að fjalla eilítið um gæði knattspyrnunnar sem spiluð er hér á landi. Landsbankadeildin er úrvalsdeild okkar Íslendinga eins og flestir vita (vonandi). Í þessari deild eiga bestu lið Íslands að spila enda segir það sig bara sjálft. Í þessari deild eru lið eins og KR (Íslandsmeistararnir), ÍA, Grindavík, Fylkir og fleiri. Þar sem ég er nú KR-ingur í húð og hár hef ég verið að fylgjast með liðinu mínu eins og undanfarin ár. En þetta ár hefur ollið mér vonbrigðum hjá mínu liði og mörgum öðrum, því miður.
Jæja en þar sem ég er KR-ingur eins og ég kom inná áðan langar mig aðeins að fjalla um mitt persónulega álit á því liði og gengi þess í gegnum árin. Gengi liðsins hefur verið svona upp og niður síðustu ár og missti liðið tvisvar sinnum í röð af Íslandsmeistaratitlinum, árin ‘97 og ’98 og í bæði skiptin fór dollan til Eyja. Enda var það stór biti að kyngja fyrir jafn gallharðann stuðningsmann eins og mig að sjá á eftir titlinum tvö ár í röð. En árið 1999 komst liðið loksins í gang. Liðið spilaði fantafína knattspyrnu og ekkert var undan henni að kvarta. Maður eins og Bjarki Gunnlaugsson sem var í herbúðum KR þetta tímabil brilleraði og var einn af burðarstólpum þessa liðs sem náði loksins í fyrsta skipti í 30 ár að landa Íslandsmeistaratitlinum. Sætasti sigurinn á þessu tímabili var án efa 3-0 sigurinn einmitt gegn ÍBV í Frostaskjóli. Eftir þann leik voru KR-ingar komnir með aðra hönd á bikarinn. Tímabilið endaði síðan glæsilega með sigri á Keflavík í Frostaskjóli í síðasta leiknum og þá fengum við bikarinn afhentann. Árið 2000 varð KR aftur Íslandsmeistari en árið 2001 skeit liðið heldur betur uppá bak og endaði í 7. sæti eftir harða baráttu við falldrauginn framan af tímabili. Knattspyrnan sem liðið spilaði þá var ekki falleg og ætti aldrei að sjást aftur. Í fyrra varð liðið svo aftur Íslandsmeistari eftir vægast sagt harða baráttu við Fylkismenn. Í næstsíðasta leiknum sem örugglega allir muna eftir átti KR útileik við Fylki og ef að Fylkir mundi sigra í þeim leik yrðu þeir Íslandsmeistarar. KR mátti ekki tapa en urðu fyrir því óláni að lenda undir í leiknum og staðan orðin 1-0. Það var svo rétt fyrir leikslok þegar Jón Skaftason fékk skot fyrir utan teig og það fór uppí samskeytin og staðan orðin 1-1 og greinilegt að úrslitin mundu ekki ráðast fyrr en í síðustu umferðinni. Þá átti Fylkir útileik á móti ÍA sem þeir töpuðu en KR átti heimaleik á móti Þór sem þeir unnu örugglega 5-1. Bikarinn var geymdur uppi á Skaga en ef það vildi til að KR yrði Íslandsmeistari var þyrla til taks til að flytja bikarinn í Frostaskjólið. Ég held að mér hefur aldrei liðið jafn vel og þegar ég heyrði í þyrlunni og þegar Eggert Magnússon steig útúr henni með bikarinn í höndunum, þetta var yndislegt. En á þessu tímabili hefur KR ekki riðið feitum hesti og gengi liðsins fremur slakt. Eftir að ég sá leik KR og Vals fyrr í sumar missti ég bara allann áhuga á mínu liði og hef lítið fylgst með. Þeir hafa verið heppnir með úrslit eins og í bikarnum á móti HK þar sem þeir rétt mörðu sigur. Gæðin í boltanum sem KR spilar er nú heldur ekki uppá marga fiska. T.d. þegar ég skrifa þessa grein stendur yfir KR-FH í Frostaskjóli en ekki nennti ég að fara á leikinn.
Auðvitað er ég ekkert að tala um að öll lið á Íslandi spila lélegan og leiðinlegan fótbolta heldur eru lið eins og Þróttur og Fylkir sem standa uppúr á þessu tímabili. Mér finnst bara leiðinlegt að ég þurfi að segja þetta en mér finnst að KR sigursælasta lið Íslands spili leiðinlegasta boltann í dag, því miður fyrir mína menn. Það eru aðeins þrír leikmenn að mínu mati sem hafa staðið sig einna best í sumar og eru það Veigar Páll, Kristján Örn og Kristján Finnboga.
En geriði það að ekki koma með skítkast út á þessa grein því ég er ekki að segja að öll lið á Íslandi spili leiðinlegan bolta heldur tók ég bara mitt lið sem dæmi enda ástæða til. Komið endilega með ykkar álit á gæðunum og svona.
Vonandi hafið þið skemmt ykkur við lesturinn. Takk fyrir mig.
kv. Geithafu