KR í 2. sætið
Í dag voru fjórir leikir á dagskrá Landssímadeildar karla í knattspyrnu. Stórleikur umferðarinnar var án efa í Vesturbænum þar sem KR tók á móti ÍA. Leikurinn fór rólega af stað, en Skagamenn voru ívið sterkari framan af. Í hálfleik var staðan 0:0. Seinni hálfleikur var öllu skemmtilegri en sá fyrri. KR-ingar komust í 1:0 snemma í síðari hálfleik. Þá skoruðu Skagamenn sjálfsmark eftir fasta sendingu frá Einari Þór Daníelssyni. Við þetta tvíefldust KR-ingar og sóttu án afláts í nokkrar mínútúr. Skagamenn fengu einnig sín færi og áttu meðal annars skalla í stöng. Leiknum lauk með sigri KR, 1:0. Í Vestmannaeyjum burstuðu Eyjamenn Framara, 6:1, Blikar völtuðu yfir Leiftur, 5:0 og Grindvíkingar og Keflvíkingar gerðu markalaust jafntefli. Á morgun eigast svo við topplið Fylkis og botnlið Stjörnunnar.