Fabien Barthez varð illilega á í messunni þegar hann átti að mæta á sína fyrstu æfingu hjá Manchester United.
Barthez, sem United keypti frá Mónakó á 930 milljónir króna, var á leið til Old Trafford en tók á vitlausa beygju og ók 65 kílómetra í átt að Anfield Road, heimavelli Liverpool. Hann uppgötvaði ekki mistök sín fyrr en hann sá skilti sem á stóð “Velkomin til Liverpool”. Hann stöðvaði þá bifreiðina og hringdi á Old Trafford til að fá leiðbeiningar hvernig ætti að komast aftur til Manchester.
“Fabien var mjög skömmustulegur þegar hann hringdi. Það spurðist fljótt út meðal annarra leikmanna að hann hefði villst til Liverpool og þegar hann mætti loksins var mikið grín gert að honum,” sagði talsmaður United.