2. umferð Landsbankadeildarinn lauk í kvöld með einum leik. Það var leikur Fylkis og Grindavíkur og var hann háður í Árbænum í blíðskaparveðri, blankalogn og sólskin. Grindvíkingar voru án Grétars Hjartarsonar, markakóngs deildarinnar í fyrra en hann er ökklabrotinn og verður frá næstu tvær til þrjár vikurnar. Fylkismenn voru mun betri framan af og áttu fleiri marktækifæri. En það dró strax til tíðinda á 33 mínútu þegar Fylkismenn fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Vinstri bakvörðurinn Gunnar Þór Pétursson tók spyrnuna og skaut bylmingsföstu skoti beint uppí samskeytin og þandi boltinn netmöskvana og Ólafur Gottskálksson kom engum vörnum við í markinu. Staðan var 1-0 í hálfleik. Eftir 6 mínútna leik geystist Haukur Ingi Guðnason upp völlinn og stakk Grindavíkur vörnina af og setti hann glæsilega í netið fram hjá Óla í markinu. Staðan sem sagt orðin 2-0 og staðan vænleg fyrir Fylkismenn. Haukur Ingi er þar með kominn með 2 mörk þar sem hann skoraði líka á móti Fram í síðustu umferð. Það var svo rétt fyrir lok leiksins að Ray Anthony Jónssyni leikmanni Grindavíkur var vikið af velli fyrir að hrinda Kristjáni Valdimarssyni, hinum unga og efnilega knattspyrnumanni. Kristján fór í tæklingu en var aðeins of seinn og fór beint í Ray sem brást illa við og hrinti honum og uppskar reisupassann. En Fylkir fór með sigur af hólmi 2-0 og eru með 6 stig eftir 2. umferðir.
Einn leikur fór fram í gær á Laugardalsvelli og var það leikur Fram og KR. Margir lykilmenn KR voru frá vegna meiðsla og má þar nefna Einar Þór Daníelsson, Hilmar Björnsson sem er reyndar út leiktíðina vegna krossbandaslita, Jökull I. Elísabetarson og Sigurvin Ólafsson. Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill og voru liðin ekki að skapa sér marktækifæri. Það var eins og vélin væri ekki að ganga. En í síðari hálfleik var mikið meira um færi þó að fyrsta markið hafi ekki komið fyrr en 12. mín fyrir leikslok. Það gerði Veigar Páll Gunnarsson fyrir KR og margir héldu að KR-ingar voru búnir að tryggja sér sigur í leiknum. En svo var raunin ekki. Frammarar fengu aukaspyrnu á lokamínútum leiksins rétt fyrir utan vítateig. Ágúst Gylfason fyrirliði Fram tók aukaspyrnuna og fór boltinn í netið eftir viðkomu í einum af varnarmanni KR. Staðan orðin 1-1 og nokkrar sekúndur til leiksloka. Leikurinn endaði 1-1 og KR-ingar væntanlega súrir vegna jafnteflis.
Á Skipaskaga mættust ÍA og Þróttur. Nýliðarnir úr Þrótti rétt töpuðu á móti KR í fyrstu umferð og voru þeir mjög sprækir í þeim leik. Enda var búist við fjörugum leik á Skipaskaga. Stefán Þórðarson leikmaður ÍA kom sínum mönnum yfir á 46. mínútu og staðan því orðin 1-0. Pálmi Haraldsson kom síðan ÍA í 2-0 á 60. mínútu og útlitið orðið svart hjá nýliðum Þróttar. Korteri síðar náðu leikmenn Þróttar aðeins að rífa sig uppá rasshárunum þegar dæmd var vítaspyrna á Skagamenn. Sören Hermansen tók vítið og skoraði og staðan því orðin 2-1 og nóg eftir. ÍA bætti svo við einu marki í viðbót og unnu því leikinn 3-1.
Á Hlíðarenda mættust nýliðar Vals og eyjapeyjarnir úr ÍBV. Valsmenn sem unnu óvæntan sigur í fyrstu umferðinni á móti Grindavík og voru staðráðnir í að gefa ekkert eftir á móti ÍBV. Eftir hálftíma leik var dæmd vítaspyrna á ÍBV. Jóhann Hreiðarsson tók vítaspyrnuna fyrir Val og skoraði framhjá Birki Kristinssyni. Staðan því orðin 1-0 fyrir nýliðana. Aðeins mínútu síðar var önnur vítaspyrna dæmd þá á Valsarana. En Ólafur Gunnarsson markmaður Vals varði vítið og staðan því óbreytt. Staðan var 1-0 í hálfleik. Eftir aðeins 6 mínútna leik bætti Jóhann Hreiðarsson öðru marki Vals og öðru marki sínu við. Staðan því orðin 2-0. Aðeins mínútu síðar fær ÍBV sókn og var það Tom Betts sem skoraði og minnkaði muninn í 2-1. Á 65. mínútu mátti segja að Valsararnir væru búnir að gera útum leikinn þegar Ármann Smári Björnsson kom þeim í 3-1. Það var svo á 79. mínútu þegar Jóhann Möller innsiglaði sigur Valsmanna á ÍBV, 4-1. Valsmenn sem sagt með fullt hús stiga eftir 2 umferðir.
Leikur KA og FH var fremur tíðindalítill og endaði hann með markalausu jafntefli.
Sumarið leggst bara vel í mig en mér finnst að mínir menn þurfi að taka sig á, en það eru einmitt KR :)
Heimildir: www.mbl.is
Kv,
Geithafu