Hinir nýföllnu Hamrar hafa stigið sín fyrstu skref sem félag í 1.deild og tilkynnt að Paolo di Canio og 9 aðrir leikmenn verði látnir fara. Skaphundurinn Lee Bowyer og gamla bakvarðarbrýnið Nigel Winterburn fylgja fyrrverandi fyrirliðanum di Canio frá Upton Park í hinum óumflýjanlega fjárhagslega niðurskurði sem fylgir falli úr Úrvalsdeildinni.
Með þessu vonast West Ham til þess að spara félaginu 10 milljónir punda í launakostnað og mun það mýkja áfallið af tekjutapi upp á um 20 milljónir punda sem fallið hefur í för með sér. Mikil óvissa ríkir um framtíð ensku fimmmenningana David James, Trevor Sinclair, Joe Cole, Michael Carrick og Jermain Defoe hjá Hömrunum, en sá síðastnefndi lagði inn beiðni sölu í vikunni. West Ham mun væntanlega þurfa að selja einhverja af þeim og hrægammar stórliðanna eru þegar byrjaðir að hringsóla yfir Austur-London, tilbúnir að kroppa í bestu bitana.
Hinsvegar hefur hinn 36 ára “ungi” Les Ferdinand hlotið náð fyrir augum niðurskurðarhnífsins og verið boðin framlenging á samningnum sem hann fékk við komu sína frá Tottenham í janúar. Aðrir leikmenn sem verða látnir flakka eru Gary Breen, Eduardo Cisse (á árs láni), Clive Delaney, Izzie Iriekpen, Scott Minto, John Moncur og fyrrverandi rauði djöfullinn, Raymond van der Gouw.
En skoski U21-árs miðjumaðurinn David Noble, írska ungstirnið Darryl McMahon og enski U21-árs markvörðurinn Steve Bywater hafa allir fengið nýja samninga.
Kveðja
D12