KR mætir Færeyjarmeisturunum á sunnudaginn Árið 2002 var undirritaður ansi skemmtilegur samningur af FITUR, samstarfshóp Íslendinga og Færeyinga á sviði ferðamála og Knattspyrnusamböndum landanna tveggja. Samningurinn kvað á um árlegan leik milli Íslands- og Færeyjameistarana í knattspyrnu. Viðburðurinn fékk nafnið Atlantic Cup og fer fram í aprílmánuði ár hvert og verður leikið til skiptis í Færeyjum og á Íslandi. Fyrsti leikurinn fór fram 27. apríl í fyrra í Færeyjum, þar sem mættust ÍA og færeysku meistararnir, Bóltfelagið B36 frá Þórshöfn. Skagamenn höfðu betur í þeirri viðureign, 2-1, með mörkum frá Ellerti Jóni Björnssyni og Grétari Rafni Steinssyni.

Leikurinn í ár átti upphaflega að fara fram í Egilshöllinni en hefur verið færður á gras á KR-vellinum vegna góðs tíðarfars. Íslandsmeistarar KR og Færeyjameistarar HB mætast á sunnudaginn og hefst leikurinn kl.17:00. Miðaverð fyrir 17 ára og eldri er 1000 kr., 11-16 ára borga aðeins 300 kall og yngri gestir fá frítt.

<a href="http://www.kr.is/“>KR.is</a> hefur tekið saman ýmsar upplýsingar um þetta lið HB en nánar má lesa um það á <a href=”http://www.hb.fo/">HB.fo</a> sem er heimasíða liðsins en hún gefur góða mynd af líflegu starfi félagsins.


Havnar Bóltfelag | Af kr.is:
HB var stofnað 17. október 1904. Félgið hefur alla tíð verið í framstu röð í Færeyjum og hefur 16 sinnum orðið Færeyjameistari og 25 sinnum bikarmeistari. HB hefur níu sinnum tekið þátt í Evrópukeppnum.
Árið 1998 var stofnað hlutafélag um rekstur meistaraflokks HB og heitir það P/f Havnar Fótbóltur. HB er stærsti hluthafinn og er tryggður a.m.k. einn fulltrúi í stjórn hvernig sem hluthafahópurinn verður samsettur í framtíðinni.
Birgir Enghamar er bæði formaður félagsins og formaður hlutafélagsins.
Stuðningsmannafélagið heitir HB-stuðlar. Það var stofnað árið 1979 og endurreist í núverandi mynd árið 1992. Það er sjálfstætt félag og má enginn vera samtímis í stjórn HB-stuðla og stjórn eða nefnd íþróttafélagsins. Félagar í HB-stuðlum eru um 200.
Búningur HB er eins og Víkingsbúningurinn, svartar og rauðar rendur í treyjum og svartar buxur.