KA hefur fundið arftaka markvarðarins Þórðar Þórðarssonar sem genginn er til liðs við sína gömlu félaga í ÍA. Daninn Sören Byskov kemur til með að verja mark liðsins í sumar en búið er að ganga frá samningum. Byskov hefur verið til reynslu seinustu vikuna hjá Akureyringum og staðið sig vel á æfingum með liðinu. Hann hefur spilað einn leik með þeim, þurfti að sækja boltann þrívegis í netið þegar KA mætti Stjörnunni og tapaði 0-3 í Deildabikarnum. Hann fékk nánast ekkert að gera, fyrir utan að sækja boltann í netið. Hann verður ekki sakaður um fyrstu tvö mörkin, en setja verður spurningamerki við það þriðja. Stjórn KA ákvað þó að dæma hann ekki af þessum leik og bauð leikmanninum samning sem hann samþykkti.
Byskov er 26 ára gamall og lék með liði Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni í fyrra. Það lið varð gjaldþrota og er ekki lengur til. Byskov hélt af landi brott á sunnudag en er væntanlegur aftur til Akureyrar strax eftir páska og tekur þátt í lokaundirbúningnum fyrir Íslandsmótið. Þess má geta að Byskov er fjórði danski leikmaðurinn sem gengur til liðs við Símadeildarlið fyrir tímabilið, áður hafa FH-ingar gert samning við tvo dani og þá munu Þróttarar tefla fram dönskum framherja.