Einn skemmtilegasti knattspyrnumaður sem leikið hefur hér á landi, Scott Ramsey, mun líklega ekki spila hér á landi í sumar. Ramsey gekk til liðs við íslandsmeistara KR í vetur en undanfarin fimm tímabil hefur hann leikið með Grindvíkingum, alls 81 leik í úrvalsdeildinni og skorað 8 mörk. Það var árið 1996 sem hann kom fyrst hingað til lands en þá lék hann í tvö ár með Reyni úr Sandgerði. Í fréttatilkynningu sem KR-Sport sendi frá sér um helgina stendur: “Það tilkynnist hér með að Scott Mckenna Ramsay mun af persónulegum ástæðum að öllum líkindum ekki spila á Íslandi í sumar.”
Heimildarmenn vefsíðunnar Fótbolta.net sögðu að ástæða þess að Ramsay vildi hætta hafi verið sú að hann teldi að honum tækist ekki að vinna sér sæti í liðinu eftir að Arnar Gunnlaugsson samdi við þá og hafi því kosið að hætta. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins bar Ramsey fyrir sig mikla heimþrá og mun því yfirgefa landið um næstu helgi.