Í dag var ég að horfa á leik Manchester United og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Ég skil ekki af hverju ég hélst við skjáinn allan tímann því þetta var vægast sagt hörmulegt af okkar mönnum.
Þetta byrjaði alls ekki vel því fyrirliði okkar og kletturinn í vörninni, Sami Hyypia, fékk rautt spjald eftir slæmt brot á Ruud van Nistelrooy! Þetta var ekkert annað en vítaspyrna og þeir sem reyna að mótmæla því bara haldið kjafti! En í þessari stöðu verð ég hreinlega bara að hneykslast á Hyypia. Af hverju í andskotanum var hann að þessu??? Hann á að heita fyrirliði og átti að hafa vit á því að treysta Dudek. Það var það eina gáfulega sem hægt var að gera í þessari stöðu. Af tvennu slæmu, að toga van Niss niður – fá hugsanlega rautt spjald og mjög líklega víti eða að láta Dudek um þetta og þá er þetta bara 50/50, þá held ég að síðari kosturinn sé vænlegri. Því eins og flestir tóku eftir sem horfðu á leikinn, þá var þetta bara búið um leið og Sami gekk af velli…
Síðan verð ég að gagnrýna fyrstu skiptingu Houlliers. Ég er enn að jafna mig á henni. Það muna kannski einhverjir eftir yfirlýsingunni sem hann gaf um daginn…? Að Heskey muni spila alla leikina sem eftir eru! ;( Hann virðist ætla að standa við hana! OK, það vantaði varnarmann svo að besti kosturinn var að taka annan sóknarmanninn út af.
Möguleikar:
Milan Baros: Sprækur, ungur framherji. Er léttur á sér, góður maður á mann og vill skora. Er ólmur í að sanna sig. Auk þess spilaði hann með landsliði Tékka um helgina og stóð sig vel.
Emile Heskey: Stór og sterkur, hægfara og latur. Það er það eina sem ég get sagt um hann. Kvartar yfir öllum sköpuðum hlut og heldur að allir séu á móti honum. Var sparkað úr enska landsliðinu fyir Wayne Rooney.
Hvaða heilvita maður velur seinni möguleikann??? Ég bara spyr! Eru ekki fleiri hissa á þessu? Og eins og þið sáuð, þá gerði Heskey akkúrat ekki neitt í þessum leik! Skapaði ekki neitt nema rifrildi! Alveg fáránlegt. Þessi maður er með ofnæmi fyrir markinu og með fullri virðingu fyrir fjölskyldu hans, þá held ég að við ættum bara að skila honum aftur til Leicester. Það er í 5. flokk þar sem menn hlaupa og hlaupa og grenja og grenja, svona fótbolti á ekki heima þarna! Að slíta sambandi Heskey og Houlliers yrði allavega skref í rétta átt!
Ég er mjög mikill stuðningsmaður míns liðs, en nú er ég kominn með nóg! Í fyrsta skipti þori ég að viðurkenna að Houllier er bara ekki nógu góður fyrir þetta lið! Þeir sem eru á móti því, lítið á árangurinn, lítið á leikmannakaupin, lítið á sölurnar, lítið á leikmannakaup sem hefðu getað orðið en Houllier vildi ekki!!! Þið hljótið að sjá þetta! Ég vil Houllier út núna og ekkert múður. Hann er of góðhjartaður og þið vitið það vel! Lítum á dæmi. Hann vildi ekki Bowyer vegna þess að honum fannst hann ekki vera nógu ákafur í að koma. Ég meina, hverjum er ekki sama??? Lítum á alla bestu þjálfara Evrópu. Myndi þeim ekki vera slétt sama um þetta, á meðan þessi leikmaður spilaði vel??? Ég held það nú og þannig nær maður árangri. Svo vorkennir hann Heskey, vill hjálpa honum að sanna sig fyrir pressunni og leyfir honum að spila meðan hann lokar á hæfileika Baros og Mellor! Houllier ætti að fara aftur til Frakklands og taka við Paris-SG. Það er fínt fyrir hann. Á meðan vona ég bara að Liverpool komist ekkert ofar á töflunni. Ég vil Houlla út og ég vil Liverpool EKKI í Evrópukeppnina. Ekki að ræða það. Ég læt ekki skemma Evrópukeppnina fyrir mér og ekki heldur gera okkur stuðningsmenn liðsins að fíflum. Á meðan furða ég mig á því hvernig leikmenn liðsins tolla þarna…Ég ráðlegg öllum að fara sem vilja ekki skemma feril sinn og ég ráðlegg Kewell og Duff að ekki koma í sumar!