Áfram heldur leikmannahópur KR að fyllast af skrautfjöðrum. Í gær skrifaði Arnar Gunnlaugsson fyrrum leikmaður Leicester í Englandi undir samning við úrvalsdeildarliðið. Arnar lék með Dundee United í Skotlandi en var ekki að finna sig þar og mun því leika með tvíburabróður sínum, Bjarka Gunnlaugssyni, í Vesturbænum í sumar. Það verður gaman að fylgjast með því enda hafa þeir ekki leikið saman í mörg ár. Fyrir þá sem ekkert vita þá mynduðu þeir tveir á sínum tíma eitt skeinuhættasta sóknarpar sem hefur verið hér á landi en þá léku þeir með ÍA uppá Skaga.
KR-ingar verða með ótrúlega sterkan leikmannahóp í sumar því þeir hafa einnig fengið þá Hilmar Björnsson, Scott Ramsey, Garðar Jóhannsson og Kristján Sigurðsson til liðs við sig í vetur. Sóknarmaðurinn Magnús Ólafsson hefur séð að ekkert pláss er fyrir hann í þessum hópi KR-inga og er kominn á ný til liðs við Hauka í 1.deildinni. Hann var markahæstur í 2.deildinni 2001 þegar hann lék með þeim.
Þrátt fyrir sterkan leikmannahóp þá fékk liðið skell gegn Fram í Deildabikarnum í gær, 0-3. Kristján Brooks skoraði öll mörkin í þeim leik.