Tryggvi í landsliðið í stað Heiðars Heiðar Helguson, framherji Watford, meiddist í tapleiknum gegn Stoke í ensku 1.deildinni um seinustu helgi og getur ekki leikið með A-landslið okkar Íslendinga gegn Skotum í undankeppni EM á laugardaginn. Heiðar hefur leikið mjög vel með Watford í vetur og verið á skotskónum eftir að hann komst í form. Landsliðsþjálfari vor, Atli Eðvaldsson, hefur valið í hans stað Tryggva Guðmundsson. Tryggvi leikur með Stabæk í Noregi og hefur leikið 29 A-landsleiki og skorað í 8 mörk. “Tryggvi kemur alltaf til greina eins og allir okkar bestu menn.” lét Atli hafa eftir sér á fotbolti.net.

Góðu fréttirnar eru þær að Árni Gautur Arason verður með á laugardag eftir allt saman en hann fór í aðgerð á olnboga á dögunum og stóð ekki til að hann yrði búinn að jafna sig í tíma fyrir Skotaleikinn. Árni lék svo seinni hálfleikinn með Rosenborg sem sigraði sænska liðið Djurgården í æfingaleik í Hollandi í gær og segir í viðtali við Morgunblaðið í morgun að miklar líkur séu á að hann verði með gegn Skotum. “Ég er kannski ekki alveg 100% búinn að ná mér en það reyndi mikið á olnbogann á æfingunni á sunnudaginn og það gekk allt vel og í flestum tilfellum reynir meira á mann á æfingum heldur en í leikjum.” sagði Árni í Morgunblaðinu í morgun.