
Willum þjálfari KR átti fertugs afmæli í gær og fékk afmælisgjöfina sem hann vildi, sigur. Eftir rólega byrjun náði Sverrir Sverrisson forystu fyrir Fylkismenn á áttundu mínútu. Fylkir bakkaði meira í vörn hægt og bítandi og á 24.mínútu jafnaði KR með sjálfsmarki hjá varnarmanni Fylkis. Einar Þór Daníelsson náði síðan forystunni fyrir KR 2-1 með óvæntu marki undir lok fyrri hálfleiks. Seinni hálfleikur var mjög dapur og ekkert mark leit dagsins ljós. Það voru því KR-ingar sem unnu þennan leik með tveimur mörkum gegn einu.
Ekki voru tilþrifin neitt mjög mikil í gær og ekki að sjá að þarna væru tvö bestu lið landsins. Sverrir Sverrisson stóð upp úr slöku liði Fylkis og þeir Scott Ramsey og Sigurður Ragnar Eyjólfsson voru bestu menn KR. Aðalsteinn Víglundsson þjálfari Fylkis hafði þetta að segja í viðtali við DV eftir leikinn: “Það er fullt af hlutum sem við þurfum að laga fyrir sumarið. Það vantar svona meiri ró á boltann og skynsemi í því sem við erum að gera. KR-ingar eru með hörkumannskap og verða án efa baneitraðir í sumar en við ætlum ekki að vera langt undan.”