Hvað hefur orðið um feril Lee Sharpe? Hvað veldur því að þessi leikmaður sem eitt sinn var einn af bestu vinstri útherjum í Evrópu er að velta því fyrir sér að fara að spila með Grindavík!! Ekki það að ég hafi neitt á móti grindvíkingum, en þeir eru kannski ekki með alveg heitasta liðið í Evrópu.
Lee Stuart Sharpe fæddist þann 25. maí 1971 í Halesowen. Hann fékk sinn fyrsta atvinnumannasamning aðeins 16 ára gamall hjá Torquay. Hann vakti þegar athygli sem mjög efnilegur og náði aðeins að spila 14 leiki með Torquay, því að hann var þá seldur til Manchester United fyrir 175.000. pund. Hann fékk þó ekki atvinnumannasamning fyrr en í júní 1988 þegar hann var orðinn 17 ára, en það var skv. reglum hjá United.
Hann spilaði síðan með unglingaliðum United en komst fljótlega í aðalliðið. Hann spilaði í fyrsta sinn í aðalliðinu 24. september 1988, þá sem vinstri bakvörður á móti West Ham. Vinstri bakvarðarstaðan var hans staða til að byrja með hjá United en hann var fljótlega færður framar á völlinn þegar Ferguson sá að hraði hans og boltatækni nýttist í þeirri stöðu sem flestir stjórar í Englandi eru í vandræðum með, þ.e. á vinstri kantinum.
Hann vann sig upp í byrjunarliðið á næstu tveimur árum og keppnistímabilið 1990-1991 stóð hann sig frábærlega og vakti mikla athygli. Hann skoraði m.a. annars þrennu í 6-2 sigri á Arsenal árið 1990. Hann vakti líka mikla athygli fyrir sérstæð “fögn”.
Hann var fljótlega valinn í landsliðið og spilaði sinn fyrsta landsleik gegn Írum 1990. Hann var þá fyrsti leikmaðurinn undir tvítugu til að spila landsleik fyrir England í nokkurn tíma, eða síðan John Barnes gerði það 1983. Lee Sharpe spilaði alls átta landsleiki fyrir England en náði ekki að skora.
Hann var síðan árið 1991 valinn efnilegasti leikmaðurinn í ensku deildinni.
Haustið 1991 meiddist hann illa og var frá í nokkra mánuði. Það olli straumhvörfum á ferli hans. Stöðu hans leysti á þessum tíma ungur óþekktur leikmaður að nafni Ryan Giggs. Eftir að Giggs komst í liðið, þá náði Sharpe aldrei aftur að festa sig í sessi. Giggs vann titilinn efnilegasti leikmaðurinn næstu tvö ár og hefur verið lykilmaður í liði United síðustu 10 árin. Sharpe spilaði stundum sem bakvörður og stundum á miðjunni, en fyrri leikni hans var langt undan og hann lifði skrautlegu lífi utan vallar. Í ævisögu sinni segir Alex Ferguson að Sharpe hafi haft alla burði til að ná lengra en flestir leikmenn sem hann hefur stýrt og hann hafi oft varað Sharpe við flöskunni og því sem henni fylgir.
En allt kom fyrir ekki og Howard Wilkinson keyti Sharpe til Leeds árið 1996. Hann varð þá dýrasti leikmaður Leeds frá upphafi, en hann kostaði 4,5 milljónir Punda. Ferill Sharpe hjá Leeds var þyrnum stráður og hann var oft meiddur langtímum saman auk þess sem hann spilaði lengstum afar illa. Eftir að George Graham tók við liðinu komst hann sjaldnast í aðalliðið og þegar David OLeary tók við var ljóst að ferill hans hjá Leeds var kominn á enda. Hann fór sem lánsmaður til Sampdoria á Ítalíu og var síðan seldur til Bradford fyrir 200.000. Pund. Hann átti stundum góða kafla með Bradford en var að lokum látinn fara í sparnaðarhreingerningu sumarið 2002.
Síðan þá hefur ferillinn legið enn niður á við, til Exeter og loks kannski til Grindavíkur.