Sævar Pétursson, bróðir Lindu P., er genginn á ný til liðs við Breiðablik. Sævar lék síðast með félaginu sumarið 2001, en hafði áður m.a. leikið með Fram og Val. Á síðasta tímabili lék Sævar með Deiglunni í 3. deild og varð markahæsti maður liðsins. Einnig er Kjartan Einarsson aftur byrjaður hjá Blikum en hann lék ekkert síðastliðið sumar.
_______________________

Á laugardaginn áttust við Víkingur og ÍBV í Deildarbikarkeppni KSÍ. Leikurinn fór fram í Egilshöllinni og lítið var um færi og það markverðast var þegar einn Eyjamaðurinn, Hafþór A. Einarsson, sló til Daníels Hafliðasonar og fékk rauða spjaldið. Hann hefur nú sent Víkingum bréf sem má lesa á vikingur.net: “Ég verð að fá að biðjast um fyrirgefningar á framkomu minni gagnvart Daniel Hafliðasyni. Ég var bara orðinn svolítið æstur, og gerði mistök sem gerast ekki aftur. Ég verð líka að fá að segja það að ég sló alls ekki Daníel, ég ýtti aftaná hnakkan á honum, ekki með hnefanun, heldur með lófanum.” Stórmannlegt hjá Hafþóri.
_______________________

Lee Sharpe ætti nú að vera kominn til Grindavíkur. Bjarni Jóhannsson þjálfari Grindavíkur sagði að tilgangur heimsóknarinnar væri eingöngu til viðræðna. Sharpe verður hér á landinu í 3-4 daga og stendur til að að sýna honum aðstæður. Svo gæti farið að kappinn muni fara með liðinu í æfingaferð til Spánar 5.-12. apríl.
_______________________

Nóg er um að vera í Deildarbikarnum hér heima og í kvöld kl.19:00 mætast Akureyrarliðin Þór og KA í athyglisverðum leik. Hann er ekki bara í Deildarbikarnum heldur gildir hann einnig sem lokaleikurinn í Norðurlandamótinu og liðið sem sigrar verður Norðurlandameistari. Leikurinn verður í nýju fótboltahöllinni á Akureyri, Boganum. Á föstudag verða þrír leikir: Fram - Afturelding kl.18:30 í Egilshöll en strax að honum loknum mætast Valur og Haukar. Í Fífunni á sama tíma, eða 20:30, keppa ÍBV og Fylkir.