Bjart framundan hjá Fram! Á mánudag tryggði Fram sér Reykjavíkurmeistaratitilinn í knattspyrnu 2003 með því að leggja Fylki að velli í úrslitaleik. Fylkir komst yfir í Egilshöllinni tveimur mínútum fyrir lok fyrri hálfleik og var þar að verki Jón B. Hermannsson. Fylkir var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en í seinni voru Framarar sterkari aðilinn og náðu að jafna leikinn með marki Kristjáns Brooks. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1-1 og því þurfti að framlengja. Ekkert var skorað í framlengdum leiktíma og því þurfti að bregða sér í vítaspyrnukeppni sem Fram vann.

Þetta var í fyrsta sinn síðan 1998 sem Fram hampar þessum titli, en þá var Jón Sveinsson núverandi aðstoðarþjálfari, fyrirliði liðsins. Þess má líka geta að Baldur Bjarnason var þá einnig í liðinu.

Í gær birtist síðan í Viðskiptablaðinu grein um góðan rekstur Fram undanfarin ár og hvernig þeir hafa náð að greiða niður allar skuldir sínar. Þar er viðtal við Finn Thorlacius, formann Fram: “Við eigum orðið skemmtilega stutt í land til að komast yfir núllið og gætum jafnvel borgað allar okkar skuldir upp á þessu ári. Þetta tókst okkur með því að henda út öllum óraunhæfum draumórum um árangur innan vallar og utan, setja mjög ábyrga menn í stjórn félagsins og taka fjármálin einfaldlega föstum tökum. Í þessu sambandi langar mig til að taka það fram hve stórt hlutverk Steinar Guðgeirsson spilaði í starfinu, en hann setti bókstaflega allan sinn kraft í að bjarga rekstrinum og átti, að öðrum ólöstuðum, hvað mestan þátt í að draga okkur upp úr mesta drullusvaðinu.”

Ítarlega grein má finna á gras.is:
http://www.gras.is/template1.asp?pageid=2&new sid=3143