Umræða hefur skapast um að Ronaldo sé á leið til Arsenal en eins og fram hefur komið er ekkert sérstaklega hlýtt á milli hans og Vincente del Bosque, þjálfara Real Madrid. Bosque segir Ronaldo vera mjög sjálfselskan og passi hreinlega ekki inn í hópinn hjá Real. Steve McManaman hefur sagt Ronaldo allt um enska boltann og hann hefur lýst því yfir að hann hafi mikinn áhuga á að fara til Arsenal, en fyrir hjá félaginu er vinur hans, Gilberto Silva. Svo hlýtur nú að toga eitthvað í staðreyndin um að Arsenal eru í augnablikinu bestir á Englandi. Patrick Vieira, leikmaður Arsenal, segist hinsvegar alls ekki vilja Ronaldo til Arsenal, enda séu þeir með Thierry Henry sem er miklu betri en Ronaldo eins og stendur.
Fréttir herma að Manchester United séu búnir að bjóða Ruud van Nistelrooy nýjan samning upp á 19 milljónir punda. Samningurinn er til fimm ára. Vikulaun hans munu hækka verulega, úr 52 þúsundum punda (6,5 milljónir króna) í 72 þúsund pund (9 milljónir króna). Með þessari launahækkun verður hann þriðji launahæsti leikmaður Man Utd, en aðeins Keane og Beckham eru launahærri. Real Madrid eru að sjálfsögðu ekki ánægðir með þessar fréttir en þeir reyndu að kaupa Nistelrooy frá PSV á undan United fyrir tveimur árum og ætluðu svo að reyna að plata hann til Spánar við samningslok eða jafnvel kaupa hann í sumar.
Nicolas Anelka hefur endanlega sagt skilið við franska landsliðið.
Þessi 24 ára framherji sem leikur núna með Manchester City hefur komið víða við þrátt fyrir ungan aldur, m.a. leikið með Arsenal og Real Madrid. Fyrir honum tilheyrir franska landsliðið fortíðinni og hann er feginn að hafa tekið þessa ákvörðun, en hún var þaulhugsuð. Hann sagði að hann hefði aldrei verið kallaður í landsliðið að einlægni og fann fyrir því að menn vildu ekki hafa hann þarna.