Í gær fóru undanúrslitaleikir Reykjavíkurmótsins í knattspyrnu fram en leikið var í Egilshöll. Valur mætti Fylki og strax í byrjun leiks komust Valsmenn yfir með marki Jóhanns G. Möller. Valur fékk Jóhann frá FH í vetur og á hann eftir að styrkja liðið mikið í sumar. En Fylkismenn voru ekki lengi að jafna metinn í 1-1 en þar var að verki Haukur Ingi Guðnason sem er nýkominn til liðsins frá Keflavík, ekki slæm byrjun hjá honum. Staðan var 1-1 í hálfleik en í upphafi seinni hálfleiks kom sigurmarkið en það kom úr vítaspyrnu. Var þar að verki Ólafur Páll Snorrason sem gekk til liðs við Fylki frá Stjörnunni í vetur. Það er því óhætt að segja að nýju leikmennirnir hafi stolið senunni.
Í hinum undanúrslitaleiknum mættust Fram og Þróttur. Í lið Fram vantaði marga sterka leikmenn en þrátt fyrir það fór liðið hamförum fyrsta hálftíma leiksins. Á þeim tíma skoraði liðið öll þrjú mörk sín í leiknum, Andri Fannar með tvö og Viðar Guðjónsson með hitt. Fyrir hálfleik náði Páll Einarsson að minnka muninn í 3-1 og í seinni hálfleik var þung pressa að marki Fram. Þróttur náði þó aðeins að skora einu sinni, Vignir Sverrisson var þar að verki, og því vann Fram 3-2 og eru komnir í úrslitaleikinn.
Úrslitaleikurinn milli Fram og Fylkis verður háður á mánudagskvöldið í Egilshöllinni og hefst kl.20.