Þann 16.Febrúar leikur kvennalandsliðið vináttuleik gegn Bandaríkjunum. Sá leikur verður seinasti leikur liðsins undir stjórn Jörundar Áka Sveinssonar sem hættir þjálfun liðsins til að einbeita sér að þjálfun á meistaraflokki karla hjá Breiðablik. Hefur hann skilað góðu starfi og erfitt að finna eftirmann hans. Það hefur þó tekist og er það engin önnur en Helena Ólafsdóttir. Helena er fædd 1969, er íþróttakennari að mennt og hefur lokið C-stigi í þjálfun. Hún hefur þjálfað yngri flokka KR í mörg ár, en tók við mfl. kvenna hjá Val 2002.
Ferill Helenu hófst hjá Víkingi R. en 1986 skipti hún í KR. Hún er fjórði leikjahæsti leikmaðurinn í efstu deild kvenna frá upphafi með 193 leiki og sú þriðja markahæsta með 154 mörk, og hefur leikið 8 sinnum með A-landsliði Íslands. Helena fylgist með liðinu í Bandaríkjunum 16. febrúar og tekur svo formlega við stjórninni eftir þann leik. Helena mun ekki hætta þjálfun kvennaliðs Vals og segir að þetta skerist nánast ekkert við störf hennar hjá liðinu.