Landsliðsmaðurinn Haukur Ingi Guðnason hefur ákveðið að spila með Fylki. Liðið hefur samkvæmt gras.is náð samkomulagi við Keflavík um kaupverð á sóknarmanninum. Samningurinn er til þriggja ára en félögin munu endurskoða samninginn um áramót og gæti þá farið svo að Haukur fari aftur til Keflavíkur ef liðið hefur unnið sér inn sæti í úrvalsdeild á ný. Tvisvar hefur Haukur Ingi farið til Austurríkis og æft með Karnten, þeir vildu fá hann frítt en það tók hann ekki í mál enda vill hann að litla liðið sitt í Keflavík fái sem mestan pening.
Ljóst er að Haukur er Fylki mikill liðsstyrkur og með tækni sinni og hraða á hann örugglega eftir að gera varnarmönnum deildarinnar lífið leitt. Haukur var hjá Liverpool en fékk ekkert tækifæri með aðalliðinu og var leystur undan samningi undir lok ársins 2000. Hann spilaði eitt tímabil með KR en þangað var hann lánaður og KR varð íslandsmeistari það ár.