Samkvæmt öruggum heimildum sjónvarpsstöðvarinnar Sýnar þá hefur Eskfirðingurinn Stefán Gíslason tekið þá ákvörðun að leika með liði Keflvíkinga í sumar. Fylkir hafði einhvern áhuga á Stefáni og þá buðu FH-ingar honum samning. Í Morgunblaðinu í gær kom fram að hann ætlaði annaðhvort til FH eða Keflavíkur. Flestir bjuggust þá við að FH yrði fyrir valinu enda leika þeir í úrvalsdeildinni á meðan Keflvíkingar féllu í fyrra niður í 1.deild. “Þótt Keflavík sé í 1.deild líst mér mjög vel á aðstæður og þjálfarann þar, enda geri ég ráð fyrir að semja til tveggja ára.”
Stefán er 22 ára en hefur þrátt fyrir ungan aldur komið víða við. Hann lék fyrst með KVA, svo með unglingaliði Arsenal, eitt sumar með KR, í þrjú ár með Strömsgodset og þaðan fór hann til Grazer Austurríki. Þar hætti hann um áramótin og flutti heim til Íslands. Hann getur bæði spilað í vörn og á miðju.
Stefán á eftir að styrkja Keflavíkurliðið mikið en þeir eru að missa sinn besta leikmann. Ljóst er orðið að landsliðsmaðurinn Haukur Ingi Guðnason ætlar sér ekki að spila í 1.deildinni. Nokkur erlend lið hafa sýnt honum áhuga en talið er líklegast að hann spili hér heima. Mörg úrvalsdeildarlið hafa sýnt framherjanum áhuga en þar fer Fylkir fremst í flokki og er talið líklegast til að krækja í Haukinn.