Mikil markvarða-samkeppni hjá ÍA Orðið er ljóst að Þórður Þórðarsson markvörður muni spila með ÍA á ný í sumar. Þórður spilaði með KA í fyrra og þar áður með Val, á báðum stöðum er Þórður ekki sá vinsælasti meðal stuðningsmanna. Hann á að baki 86 leiki í efstu deild með ÍA og er fæddur og uppalinn á Skaganum. Seint á seinasta ári skrifaði Stefán, yngri bróðir Þórðar, undir samning við ÍA.

Kaupin á Þórði koma nokkuð á óvart í ljósi þess að ekki voru Skagamenn illa staddir í markmannsmálunum. Fyrir eru hjá félaginu þeir Ólafur Þór Gunnarsson og Páll Gísli Jónsson. Ólafur hefur staðið undanfarin ár í marki ÍA og var m.a. valinn efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins á sínum tíma. Hann á eitt ár eftir af samningi sínum. Gunnar Sigurðsson hjá ÍA segir í Morgunblaðinu: “Það er okkar vilji að Ólafur verði hjá okkur áfram. Við erum mjög ánægðir með hann og komum til með að standa við okkar samning gagnvart honum og vonumst til þess að hann geri það líka.”

Páll Gísli er efnilegur markvörður sem hefur verið valinn í U-21 árs landsliðið. Talið er að hvorugur sætti sig við að verma varamannabekkinn í sumar, hvað þá stúkuna! Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að bæði Fram og Valur hafi áhuga á að krækja í Ólaf Þór. Spennandi verður að fylgjast með þessu máli á komandi vikum.