Þjálfari: England
Alex Ferguson var ráðinn þjálfari Manchester United þann 6.nóvember 1986 og tók þar við starfi Ron Atkinson sem engum árangri hafði náð með liðið. Árangur Fergie með Aberdeen hafði vakið heimsathygli og ýmis stórlið höfðu borið víurnar í kappann og má þar nefna Barcelona, Arsenal, Rangers og Tottenham, en boð þess síðastnefnda mun hann hafa íhugað vandlega.(!!!). Örlögin leiddu hann þó til Manchester borgar.
Manchester United hafði ekki unnið ensku deildina síðan árið 1967 og menn þar á bæ voru orðnir nokkuð langeygðir eftir titlum. Liðið hafði yfir ágætishæfileikum að búa og góða leikmenn innan sinna raða, og nægir þar að nefna menn eins og Bryan Robson, Frank Stapleton, Norman Whiteside, Paul McGrath, en snillingurinn Mark Hughes hafði skömmu fyrir komu Fergie’s verið seldur til Barcelona. Einnig hitti Fergie þar fyrir Gordon Strachan, fyrrum lærisvein sínum frá Aberdeen árunum. Alex Ferguson var og er vinnusamur maður og ekki leið á löngu þangað til Manchester United og líf hans urðu eitt. Fyrstur á staðinn og síðastur heim var hans mottó. Hann beitti aga og gerði leikmönnum ljóst að þeir væru ekki hérna til að leika sér. Eitt af því allra mikilvægasta sem hann kom til leiðar var að koma unglingastarfi í lag og gera mönnum grein fyrir mikilvægi þess. Og efling unlingastarfsins átti eins og allir vita eftir að margborga sig. Einnig er vert þess að geta þess að Ferguson hafði með sér Archie Knox, aðstoðarþjálfara sinn frá Aberdeen með til Old Trafford.
Er Ferguson tók við Manchesterliðinu í nóvember 1986 var liðið á botni deildarinnar og hafði þegar verið slegið út úr deildarbikarnum. Alex gerði ekkert í leikmannamálum liðsins fyrsta árið sitt heldur notaðist við þann hóp sem var til staðar. Liðið var slegið út í 4.umferð enska bikarsins en klifraði hægt og sígandi upp töfluna og endaði í 11.sæti deildarinnar. Má geta þess að byrjanarliðið í fyrsta leik Man Utd undir stjórn Ferguson var sem hér segir: Turner, Duxbury, Albiston, McGrath (Olsen), Moran, Hogg, Blackmore, Stapleton, Moses. Leikurinn sem var gegn Oxford United tapaðist 2-0. Sumarið 1987 var svo kominn tími til að styrkja leikmannahópinn. Fyrsti leikmaður sem Alex Ferguson keypti til Manchester United var ungur skoskur sóknarmaður að nafni Brian McClair en hann kom frá Glascow Celtic fyrir 850,000 pund. Einnig var keyptur Viv Anderson frá Arsenal fyrir 250,000 pund. Síðustu kaup ársins voru svo á miðverðinum hávaxna Steve Bruce, sem kom til félagsins í desember frá Norwich fyrir 825,000 pund. Einnig losaði hann liðið við hina ýmsu minniháttar spámenn. Tímabilið 1987/88 var Manchester United nánast óþekkjanlegt frá árunum áður. Liðið spilaði vel og endaði með 81 stig í deildinni, nýju stigum á eftir Liverpool sem urðu meistarar. Liðið var slegið út í 5.umferð FA Cup og í deildarbikarnum datt liðið út í 4.umferð. Nýju mennirnir Andersen, Bruce og McClair stóðu sig frábærlega, sér í lagi Brian McClair sem skoraði hvorki fleiri né færri heldur en 31 deildar og bikarmark. Tímabilið á eftir er því ekki furða þótt að menn hafi ferið stórhuga og sumarið 1988 var lagt mikið kapp á styrkja hópinn og voru keyptir leikmenn eins og Jim Leighton og Lee Sharpe að ógleymdum Mark Hughes sem snéri aftur frá Barcelona fyrir 1,8 milljónir pund. Tímabilið 1988/89 gekk þó ekki alveg sem skyldi. Liðið átti í miklum meiðslavandamálum og endaði einungis í 11.sæti deildarinna. Liðið datt út í 3.umferð deildarbikarsins en komst þó alla leið í 6.umferð enska bikarsins. Stjórn félagsins mun hafa íhugað stöðu Fergusons undir lok tímabilsins en ákváðu að halda sig við hann.
Eftir þetta slæma gengi ákvað Alex Ferguson að hreinsa aðeins til hjá sér og liðið losaði sig meðal annars við Gordon Strachan, auk þess sem Paul McGrath og vandræðabarnið NormanWhiteside voru seldir í burtu, en þeir tveir höfðu dálítið meira en góðu hófu gegndi verið að stunda öldurhús bæjarins. En maður kemur í manns stað og meðal þeira sem gengu liðs við Man Utd voru Mike Phelan sem kom frá Norwich fyrir 750,000 pund, Gary Pallister frá Middlesborough fyrir 2,3 milljónir, Paul Ince frá West Ham fyrir 1,5M og Neil Web frá Notthingham Forrest, einnig fyrir 1,5M. Tímabilið 1989/90 var þó engin dans á rósum. Í janúarmánuði barðist liðið í bökkum í neðri hluta deildarinnar og hafði meðal annars tapað 5-1 fyrir Man City. Gagnrýnisraddir fóru því brátt að heyrast sem vildu að Ferguson tæki pokann sinn. Og raunar munaði ekki miklu að svo færi. Þó svo að Martin Edwards, einn af aðalstjórnarmönnum félagsins gegnum tíðina, af alltaf neitað því, eru sparkspekingar sammála um að leikurinn gegn Nottingham Forrest í 3.umferð bikarsins hafi ráðið úrslitum um framtíð Fergie’s hjá félaginu. Sá leikur fór fram á City Ground og endaði með naumum 1-0 sigri Man Utd þar sem Mark Robbins skoraði sigurmarkið. Almennt er sparkspekingar sammála um ef sá leikur hefði tapast hefði Alex Ferguson verið rekinn frá Manchester United. En svo fór nú ekki og kappinn hélt starfi sínu. Gengi liðsins skánaði þó ekkert í deildinni og liðið endaði einungis í 13.sæti deildarinnar. Í FA Cup gekk aftur á móti allt upp og liðið fór alla leið í úrslitaleikinn á Wembley þar sem Crystal Palace voru mótherjarnir. Leikur liðanna endaði 3-3 og þurfti því að endurtaka hann og hafði Man Utd þá nauman 1-0 sigur. Var það varnarmaðurinn Lee Martin sem tryggði Alex Ferguson sinn fyrsta bikar sem stjóri liðsins. Vert er að geta þess að liðið spilaði alla leiki sína í keppninni á útivelli.
Strax næsta ár varð liðið svo Evrópumeistari Bikarhafa með 2-1 sigri á Barcelona í úrslitum auk þess sem liðið tapaði 1-0 fyrir Sheffield Wednesday í úrslitum deildarbikarsins.
Til að gera langa sögu stutta hefur árangur Alex Ferguson með Manchester United allar götur síðan verið hreint út sagt ótrúlegur. Liðið varð meistari árin 1993, 1994, 1996, 1997, 1999, 2000 og 2001. Enski bikarinn kom í hús árin 1994, 1996, og 1999. Deildarbikarinn vannst árið 1992 auk þess sem liðið vann Góðgerðaskjöldinn árin 1993, 1994, 1996 og 1997. Einnig vann liðið Ofurbikar Evrópu (European Super Cup) árið 1991 og Heimsbikarinn (Intercontinental Cup) árið 1999. Allir muna svo eftir úrslitaleiknum ótrúlega gegn Bayern Munich í úrslitum Meistaradeildar Evrópu árið 1999. En Man Utd vann þann leik 2-1 eins og allir muna. Titlarnir hafa því verið fjölmargir í gegnum tíðina og hefur Ferguson fengir ógrynni viðukenninga samhliða því. Ég ætla ekkert að vera að fara nánar í sögu Manchester United síðustu árin því hún er öllum kunn og óþarfi að vera að tíunda hana hér. Allir þekkja þá leikmenn sem Alex Ferguson hefur búið til sem og hver þróun unnglingastarfs þess sem hann setti á fót hefur verið. En þaðan komu m.a. menn eins og Ryan Giggs, David Beckham, Paul Scholes, Neville-bræður, Nicky Butt og svona mætti lengi telja.
En hér læt ég staðar numið við Alex sögu Fergusonar, eins sigursælasta knattspyrnuþjálfara sögunnar.
P.s. Að lokum má geta þess að Sir Alex er að læra á píanó í frístundum, er mikill áhugamaður um veðhlaupahesta, hefur verið giftur konunni sinni Cathy í áratugi og á synina Mark, Darren og Jason. Margir muna kannski eftir Darren Ferguson en hann spilaði undir stjórn föðurs síns hjá Man Utd um tíma en er þó einungis miðlungsleikmaður.
“Football! Bloody hell…”
Alex Ferguson eftir sigur Man Utd í Meistaradeildinni árið 1999.