Enska pressan í dag er stútfull af fréttum þess efnis að okkar ástkæri knattspyrnumaður, Eiður Smári Guðjohnsen, tapaði um 50 milljónum króna á 5 mánuðum í spilavítum. Í “The People” í dag er viðtal við Eið þar sem hann leysir frá skjóðunni. Þetta byrjaði allt saman þegar Eiður átti við meiðsli að stríða í fyrra og var frá æfingum með Chelsea. Kærasta hans og börnin tvö fóru á þessum tíma heim til Íslands og sótti einmanaleikinn þá á Eið. Hann drap þá tímann með því að hanga í spilavítum, hann vann stóran vinning í fyrsta skiptið og eftir það var ekki aftur snúið.
“Ég hef komist að því hve hættuleg spilafíknin getur verið. Ég ætla mér aldrei aftur að stíga fæti inn í spilavíti. Ég er ánægður með að geta verið öðru ungu fólki víti til varnaðar.” sagði Eiður við “The People”. Eiður skuldar enn nokkrar milljónir vegna spilafíknar sinnar en ætti ekki að vera í vandræðum með að borga þær því pilturinn er að fá ágætis laun hjá Chelsea. Þess má geta að Chelsea vann Charlton í gær 4-1 og skoraði Eiður eitt markanna.