Sir Alex Ferguson
Ég ætla hérna að rétt að henda inn einni grein um hinn magnaða skoska knattspyrnustjóra Manchester United.
Persóna og leikmaður:
Alexander Chapman Ferguson er fæddur þann 31.desember árið 1941 í Govan-hverfinu í skosku borginni Glasgow. Snemma var ljóst hvert hugur kappans stefndi og knattspyrnan varð fyriferðarmikil í hans lífi þegar á unga aldri. Hann hafði keppt fyrir Govan High School, Glasgow Schools, Scotlands Schools og Harmony Row Boys Club áður en hann gekk 15 ára gamall til liðs við skoska 2.deildarliðið Queen’s Park F.C, þó einungis sem áhugamaður, sama ár, þ.e.1957, spilaði hann fyrsta leik sinn fyrir félagið á útivelli gegn Stanrear, og hef ég ekki heimildir fyrir því hvernig þeim leik lyktaði. Ferguson spilaði með Queen’s Park til ársins 1960, en þá skrifaði hann undir samning um að spila fyrir St.Johnston – en þó aðeins í hlutastarfi því hann var í fullu starfi við að nema verkafærasmíði (toolmaking) í ritvélaverksmiðjunni Remington Rand. Fergie lét raunar mikið að sér kveða á þeim vettvangi sem öðrum því á meðan á starfstíma hans þar stóð skipulagði hann ólöglegt verkfall iðnema sem ná skyldi um allt Bretland, greitt var atkvæði um tillögu hans og með naumum meirihluta var hún samþykkt og Fergie leiddi félaga sína fram á blóðugan vígvöll verkalýðsbaráttunnar. Ekki fylgir sögunni hver þróun þessarrar athafnasemi hans var í þeim geiranum. Merkilegast við þennan atburð er ef til vill það, að til að tillagan væri samþykkt átti að þurfa til 2/3 atvkæða, þannig að Fergie hefur sennilega slegið einhverja leiftursnöggt í hnakkann til að koma sínu til leiðar. Ekki í síðasta sinn. En aftur að knattspyrnu.
Árið 1960 gekk Alex Ferguson sem sé til liðs við St.Johnston ásamt því að vera í fullu starfi að nema verkfærasmíðar. Hann spilaði sinn fyrsta leik sinn fyrir félagið í september sama ár gegn Falkirk skosku deildarbikarkeppninni, og náði kappinn þar meira að segja að setja eitt mark í 7-1 sigri. Ferguson spilaði með St.Johnstone allt til ársins 1964 og stóð sig alveg með ágætum, 19 mörk í 37 deildarleikjum. Ekki slæmt hjá manni sem vinnur 100% starf við ritvélaframleiðslu. Eftir þessa ágætis byrjun á knattspyrnuvellinum varð fljótlega ljóst að Fergie þyrfti að velja á milli fótboltans og verkfærasmíðinnar, og þótt verkfærasmíðin hafi eflaust verið freistandi, varð boltinn ofan á, sem betur fer fyrir knattspyrnunnendur allar götur síðan. Árið 1964 skrifaði Alex Ferguson loksins undir sinn fyrsta atvinnumannasamning, við 1.deildarliðið Dunfermline og ílengdist hann þar næstu þrjú árin. Á þeim tíma bara það helst til tíðinda að hann öðlaðist sína fyrstu reynslu í Evrópukeppni, er Dunfermline komst í 8-liða úrslit gömlu Fair’s Cup. Gott ef hún var ekki nefnd Borgarkeppni Evrópu upp á ástkæra ilhýra. Leiðréttið mig ef mér skjátlast. Hitt atriðið sem bar til tíðinda var það að árið 1967 voru honum veitt einskonar heiðursverðlaun eða viðurkenning fyrir þátt sinn í velgengni Dunfermline (Scottish League Representative Honours, veit ekki alveg hvernig á að útskýra þetta á íslensku).
Sem fæddur og uppalinn Glascow búi ól Fergie, eins og væntanlega velflestir smástrákar borgarinnar eða helmingur að minnsta kosti, þann draum með sér að spila fyrir stórliðið Glascow Rangers. Í ágúst 1967 kom svo kallið frá Ibrox loksins og hann var seldur þangað fyrir 65,000 pund (55,000 pund er önnur tala sem ég hef heyrt). Hann dvaldi hjá Rangers í 2 ½ ár og afrekaði á þeim tíma að verða í öðru sæti skosku deildarinnar 1968 og 1969 á eftir Glasgow Celtic, auk þess sem liðið steinlá ennfremur fyrir Celtic í úrslitum skoska bikarins árið 1969. Leikurinn endaði 4-0 fyrir Celtic og var okkar maður Alex Ferguson harðlega gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í leiknum. Sú gagnrýni og sú staðreynd að hann fékk að verma tréverkið æ oftar gerði það að verkum að hann var seldur til Falkirk árið 1969 fyrir 20,000 pund. Einnig rakst ég á nokkuð á vafri mínu á netinu sem vakti athygli mína, sem er að árið 1968 spilaði Fergie sinn annan “landsleik” fyrir skosku deildina, gegn írsku deildinni. Álít ég að þar hafi áttst við eins konar úrvalslið deildanna tveggja – kann ég enginn frekari deili á þessu fyrirbæri. Til að klára Rangers-árin læt ég fljóta með að sú bitra reynsla Ferguson að verða fyrir harðri opinberri gagnrýni eftir bikarleikinn gegn Celtic varð til þess að hann forðast að gera það sama sem þjálfari. Læt fljóta með tilvitnun frá karlinum.
“My job is not to criticise my players publicly. When a manager makes a public criticism, he's affecting the emotional stability of a player and that cannot be the professional thing to do. It is more about loyalty than protection”. ( Goal, October 1996).
Eftir að hafa sankað að sér silfurmedalíum með Rangers gekk Alex Ferguson sem sé til liðs við Falkirk árið 1969 fyrir 20,000 pund sem var það mesta sem liðið hafði greitt fyrir leikmann fram til þessa. Nýja stjarnan þeirra virtist þó ágætis fjárfesting og skoraði kappinn þegar í sínum fyrsta leik, gegn Berwick Rangers. Hann bætti svo við 13 mörkum á tímabilinu og var aðalástæða þess að liðið sigraði skosku 2.deildina og tryggði sér sæti í efstu deild. Tvö næstu tímabil var hann svo markahæsti leikmaður liðsins, skoraði 14 mörk það fyrra og 9 það seinna. Vert er einnig að minnast þess að árið 1970 var hann kjörinn formaður Samtaka atvinnuknattspyrnumanna í Skotlandi. Hjá Falkirk steig hann einnig sínu fyrstu skref sem þjálfari, og var spilandi þjálfari síðustu daga sína þar, (ekki þó aðalþjálfari, að ég held). Eftir að hafa skorað 37 mörk í 94 leikjum fyrir Falkirk endaði svo Fergie leikmannsferillin hjá Ayr United, en hann gekk til liðsins árið 1973, þó aðeins með knattspyrnuna sem aukastarf því mestur tími hans fór í að reka kránna sína í Glascow, en hún hét auðvitað…Fergie’s Bar.
Alex Ferguson spilaði allan sinn ferill sem framherji, og stóð sig ágætlega sem slíkur,
þó aldrei hafði hann komist í röð þeirra bestu og hans eini titill sem knattspyrnu maður var 2.deildartitillinn sem hann vann með Falkirk. Hann spilaði aldrei fyrir skoska A-landsliðið en lék hins vegar bæði fyrir unglingalandslið Skotlands sem og áhugamannalandslið landsins. Árið 1984 var honum veitt OBE (Order of the British Empire) orðan, CBE (Commander of the Order of the British Empire) orðan kom árið 1995, og að lokum var hann aðlaður af Elísabet II Bretadrottningu árið 1999, og ber því titillinn SIR. Enn fremur var honum veitt heiðursgráða frá Háskólanum í St.Andrews í nóvember sl. og komst hann þar í hóp valinkunnra kappa eins og t.d Sean Connery. Alex Ferguson er hins þekktari fyrir nokkuð annað en hæfleika sem knattspyrnumaður.
Þjálfari: Skotland
Árið er 1974 og Alex Ferguson er 33 ára kráareigandi í Glascow sem spilar fótbolta með smáliðinu Ayr United í frítíma sínum. Hljómar ekki eins og upphaf eins glæsilegasta þjálfaraferil knattspyrnusögunnar. En allar ferðir hefjast jú á einu skrefi.
Alex Ferguson var sem sé ráðinn þjálfari neðrideildarliðsins East Stirlingshire í júlí árið 1974. Einhvers staðar verða menn jú að byrja en dvöl Fergie’s hjá hinu bláfátæka Stirlingshireliðið var þó ekki löng og einungis mánuði síðar hafði hann tekið við 2.deildarliðinu St.Mirren og stýrði hann liðinu til sigurs í 2.deild árið 1977. Árangur hans með liðið vakti mikla athygli og árið 1978 var hann ráðinn þjálfari Aberdeen. Forráðarmenn menn Aberdeen áttu ekki eftir að iðrast þeirrar ákvörðunnar. Raunar verður þó að geta þess að þrátt fyrir frábæran árangur með hið fjármálalega vangefna lið St.Mirren var Alex Ferguson rekinn frá félaginu eftir deilur við forráðamenn þess. Hann var þó ekki lengi atvinnulaus því eins og áður sagði voru Aberdeenmenn snöggir að krækja í kappann. Og hjá Aberdeen hefst Alex saga Fergusonar fyrir alvöru.
Árið 1978 var Aberdeen einungis miðlungslið sem hafði ekki orðið skoskur meistari síðan árið 1955, og skoski bikarinn hafði síðast komið í hús árið 1970. Liðið hafði þó náð að krækja sér í deildarbikarinn árið fyrir kom Ferguson. Enn fremur hafði liðið yfir fremur litlum fjármunum að moða og leikmannahópurinn enginn snilld, en ágætis hópur var það þó. Til að gera langa sögu stutta var árangur Aberdeen undir stjórn Alex Ferguson hreint út sagt stórfenglegur. En á þeim 8 leiktímabilum sem hann stjórnaði liðinu vann félagið skosku deildina árin 1980, 1984 og 1985 og endaði í 2.sæti árin 1981 og 1982. Skoski bikarinn kom í hús árin 1982, 1983, 1984 og 1986, og þar er innifalin ótrúlegur 4-1 sigur á Rangers árið 1982. Aukin heldur varð liðið deildarbikarmeistari árið 1986. Mesta afrek Alex Ferguson hjá Aberdeen,og sem sumir vilja meina að sé mesta afrek hans sem þjálfara, var árið 1983 er hann stýrði liðinu til sigurs í Evrópukeppni Bikarhafa. Eftir að hafa slegið út stjörnum prýtt lið Bayern Munich í 8-liða úrslitum og Lárus Guðmundsson og félaga í Waterschei THOR Genk í undanúrslitum samanlagt 5-2 (Lárus Guðmunsson skoraði annað mark Waterschei) lá leiðin til Gautaborgar til að keppa um bikarinn við ofurlið margfaldra Evrópumeistara Real Madrid. Byrjunarlið skoska lítilsmagnans í þeim leik var sem hér segir:
Jim Leighton, - Doug Rougvie, Alex McLeish, Willie Miller ©, JohnMcMaster, - Neale Cooper, Gordon Strachan, John Simpson – Mark McGhee, Eric Black (87 John Hewitt), Peter Weir.
Leikurinn byrjaði vel fyrir lærisveina Fergie’s því Eric Black kom þeim yfir þegar á 7.mínútu en Juanito jafnaði fyrir Real Madrid úr vítaspyrnu á 14.mínútu. Þannig var svo staðan allar götur þangað til á 112. mínútu er varamaðurinn John Hewitt tryggði skotunum sigur. Dramatískur sigur í framlenginu er Davíð gekk yfir Golíat. Þess má geta að þjálfari Real Madrid í þessum leik var enginn annar en Alfredo Di Stefano.
Enn fremur má geta þess að Lárus okkar Guðmundsson stóð sig frábærlega í þessarri keppni og varð næstmarkahæstur hennar með 6 mörk. Einungis Carlos Santillana hjá Real Madrid skoraði fleiri mörk eða 8. Toppaði Lárus þar ekki ómerkari menn heldur Diego Maradona, Toni Polster og Bernd Schuster sem allir skoruðu 5 mörk. Ekki slæmt það.
Eins og sjá má voru fáar kunnar stórstjörnur í liði Aberdeen en kunnustu leikmennirnir voru vafalaust Jim Leighton, Alex McLeish, Gordon Strachan og Peter Weir. Má geta þess að Peter Weir var dýrasti leikmaður liðsins en hann hafði Fergie keypt frá St.Mirren fyrir 225,000 pund, auk þess að láta leikmann upp í kaupinn.
Alex Ferguson hafði á þessum tíma unnið stórfenglegt starf með Aberdeen og orðið í framhaldi þess einn af aðstoðarmönnum gamla refsins Jock Stein landsliðsþjálfara Skotland. Jock Stein þessi hafði unnið ágætis starf með skoska landsliðið og tryggði því meðal annars þáttökurétt á HM í Mexíkó árið 1986. En ekki vildi þó betur til en svo að miðjum í leik gegn Wales, sem var einn af síðustu leikjum undankeppninar, tók kappinn upp á því að deyja. Þurfti þá Skoska knattspyrnusambandið að hafa snör handtök við að finna einhvern til að stýra liðinu á HM. Og vitaskuld var leitað til Alex Ferguson sem tók að sér starfann. Förin til Mexikó var þó ekki til frægðar farin, liðið tapaði fyrir Danmörku og Vestur-Þýskalandi og gerði 0-0 jafntefli við Urugay og var haldið rakleiðis til baka í Hálöndin. Síðan þá hefur Alex Ferguson ekki stjórnað landsliði. Þjálfaraferill hans var þó rétt að byrja og ýmsar blikur á lofti. Sunnan landamæranna var gamall risi að bæra á sér eftir að hafa sofið djúpum svefni í fjöldamörg ár…
Kveðja, Prair.