Reykjavíkurmótið í knattspyrnu hefst í kvöld með leik Léttis og KR í Egilshöll kl.19:00. Strax að þeim leik loknum, eða um 21, mætast í hinum riðlinum lið ÍR og Víkings en bæði lið hafa verið að styrkja sig uppá síðkastið með nýjum leikmönnum.
ÍR-ingar sem féllu úr 1.deildinni seinasta sumar stefna að sjálfsögðu á það að vinna sér inn sæti í deildinni á ný í sumar. Ellefu leikmenn hafa skipt yfir í ÍR og verða löglegir með liðinu á Reykjavíkurmótinu sem hefst í kvöld. Engin stór nöfn eru þar á meðal en þetta eru leikmenn sem ÍR-ingar ættu að hafa mikið not af. Gunnar Konráðsson er kominn frá Þór Akureyri en Gunnar spilaði átta leiki með liðinu í Símadeildinni í sumar. Þrír leikmenn Ægis eru komnir í Breiðholtið og tveir úr liði Léttis. Þá eru ÍR-ingarnir með nokkra ágætis leikmenn í 2.flokki sem liðið á eftir að nota í sumar.
Mótherjar ÍR-inga í kvöld, Víkingar, eru til alls líklegir í 1.deildinni í sumar og verða líklega í baráttunni um sæti í Símadeildinni. Liðið hefur fengið góðan liðsstyrk fyrir komandi átök. Markahæsti maður 2.deildarinnar í fyrra, Ragnar Haukur Hauksson, er kominn í Víkina frá KS Siglufirði. Ragnar skoraði 18 mörk seinasta sumar og spilaði á sínum tíma með ÍA þar sem hann skoraði 13 mörk í 33.leikjum. Efnilegur 19 ára gamall Valsari, Arnar Steinn Einarsson, ætlar að spila með Víking í sumar og þá hefur Gunnlaugur Garðarsson, sem enn á eitt ár eftir í 2. flokki, skrifað undir 3 ára samning við félagið.