Tveir af lykilmönnum 1.deildarliðs Leifturs/Dalvíkur gengu í gær til liðs við úrvalsdeildarlið KA sem verða að öllum líkindum feyknarsterkir í sumar. Mennirnir sem hér um ræðir eru þeir Örvar Eiríksson og Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson (á mynd). Örvar er þrítugur sóknarmaður og var fyrirliði Leifturs/Dalvíkur og annar markahæsti leikmaður liðsins. Hann er bæði leikja- og markahæsti leikmaður þeirra í deildakeppninni frá upphafi. Þorvaldur er 24 ára varnarmaður og lék með Leiftri fram að sameiningu grannliðanna. Hann á að baki 44 leiki með Leiftri í úrvalsdeildinni og var kosinn knattspyrnumaður ársins 2002 á Ólafsfirði.
KA hefur því fengið til sín bæði næst-markahæsta og markahæsta leikmann Leifturs/Dalvíkur því áður skrifaði Þorleifur Árnason undir samning við Akureyringa. Þar með eru fjórir af leikmönnum Leifturs/Dalvíkur frá síðasta tímabili komnir í raðir KA-manna því Hjörvar Maronsson er einnig farinn til Akureyrarliðsins. Ljóst að Leiftur/Dalvík hefur misst marga sterka leikmenn og má því setja spurningamerki við hvernig þeir munu standa sig í sumar.
Hér er allavega listi sem ég bjó til með upplýsingum um þá leikmenn sem farnir eru frá Leiftri/Dalvík:
Þorleifur Árnason í KA
Hermann Albertsson í FH
Sigurjón Egilsson í Fjarðarbyggð
Albert Arason í Aftureldingu
Örvar Eiríksson í KA
Hjörvar Maronsson í KA
Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson í KA
Ljóst er að erfitt verkefni býður nýráðins þjálfara liðsins, Nóa Björnssonar. Leiftur/Dalvík endaði tveimur stigum frá fallsæti í fyrra.