Arsene Wenger Arsene Wenger

Smá grein hérna um hinn magnaða franska þjálfara Arsenal.

Persóna:
Arsene Wenger fæddist í Strasbourg í Frakklandi þann 22. október á því herrans ári 1949 og er því núna á sínu 54.aldursári. Hann útskrifaðist sem hagfræðingur frá Háskólanum í Strasbourg árið 1974 og talar auk þess sex tungumál, frönsku, ensku, þýsku, spænsku, ítölsku og japönsku og er auk þess mikill áhugamaður um læknisfræði. Í nóvember 1999 var honum svo enn fremur veitt heiðursgráða (DSc) við Háskólann í Hertfordshire. Allir þessir kostir koma sér óneitanlega vel fyrir knattspyrnuþjálfara. Hann veltir mikið vöngum og er þekktur undir nafninu “Hugsuðirinn”.

Leikmaður:
Wenger er ekki einn af þeim sem eiga stórkostlegan knattspyrnuferil sem leikmenn og snúa sér svo að þjálfun að því loknu, því hann var aldrei meira en miðlungsleikmaður. Tvítugur að aldri hóf hann knattspyrnuferil sinn með franska 3.deildarliðinu Mutzig og lék með því og tveim öðrum áhugamannaliðum, Mulhause og Vauban til ársins 1978 er honum var boðin atvinnumannasamningur hjá 1.deildarliðinu Strasbourg, og lék hann sama ár sinn fyrst leik fyrir liðið gegn Monaco, engum sögum fer af frammistöðu kappans í þeim leik. Ári seinna varð hann svo franskur meistari með liðinu en spilaði þó eingungis 3 leiki á tímabilinu. Má þar með segja að ferli Arsene Wenger, miðlungs varnarmanns og sweeper, hafi lokið og við taki sá ferill sem hann er betur þekktur fyrir, það er að segja þjálfaraferillinn.

Þjálfari: Frakkland
Árið 1981 fékk hann þjálfararéttindi sín í París og var sama ár ráðin þjálfari unglingaliðs Strasbourg og sinnti hann því starfi í tvö ár eða til 1983 er hann var ráðin staða sem aðstoðarþjálfari Cannes. Því starfi gegndi hann þó aðeins í ár því honum var boðin aðalþjálfarastaða 1.deildarliðs Nancy Lorraine og tók því. Sú ferð var þó ekki farin til fjár því ekki tókst honum betur upp en að stýra liðinu rakleiðis niður í 2.deild. Engu að síður sá klúbburinn eitthvað við hann því hann hélt starfinu. Stóra tækifærið kom svo árið 1987 er honum var boðin aðalþjálfarastaða stórliðsins Monaco, og má segja að þar hafi frægðarsól Arsene Wengers fyrst farið að gægjast upp á stjörnuhiminn. Eftir að hafa stjórnað liðinu í aðeins eitt ár stýrði hann því til sigurs í frönsku deildarkeppninni og var valinn þjálfari ársins í Frakklandi. Má geta þess að helstu stjörnur liðsins sem Wenger fékk til sín þessi ár voru Englendingar Glenn Hoddle og Mark Hateley, og áttu þeir eftir að vera ólatir við lofa fransmanninn í eyru hvers sem nennti að hlusta. Árið síðar, 1989, endaði liðið svo í öðru sæti frönsku deildarinnar, tapaði í úrslitum franska bikarsins og komst í 8-liða úrslit í Evrópukeppni meistarliða. 1990 endaði liðið í þriðja sæti en var slegið út í undanúrslitum Evrópukeppninnar, 1991 varð liðið svo bikarmeistari og endaði í öðru sæti deildarinnar. 1992 var svo eitt ár 2. sætis í viðbót. Liðið endaði í öðru sæti deildarinnar, tapaði fyrir Werder Bremen í úrslitum Evrópukeppni bikarhafa en komst í úrslitaleik franska bikarsins, en sá leikur fór aldrei fram. Árið 1994 var svo fyrir ýmsar sakir merkilegt fyrir Arsene Wenger, en þá var var hann valinn besti þjálfari Frakklands og boðin þjálfarastaða bæði hjá Bayern Munchen og Franska landsliðinu, Wenger ákvað þó að standa við skuldbindingar sínar við Monaco og hafnaði báðum boðunum. Ferill hans var þó ekki mikið lengri hjá félaginu því að eftir slæmt gengi endaði liðið einungis í 9.sæti deildarinnar og þar með var honum réttur pokinn sinn. Vert er þó að minnast á að liðið komst í undarúrslit Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa slegið út Man Utd 8-liða úrslitum þar sem ungstirnin Thierry Henry og David Trezeguet áttu drýgstan hlut í að strákarnir hans Fergie’s voru sendir heim með skottið á milli lappanna. Þetta reyndist þó einungis vera fyrsta rimma þeirra Alex Fergusonar og Arsene Wenger og hafa þeir skipt sigrunum nokkuð bróðurlega á milli sín, þótt bróðurkærleikur sé kannski ekki ríkjandi í þeirra samskiptum. En nóg um það. Árið 1994 er Arsene Wenger sem sé rekinn frá Monaco eftir mörg góð ár sem innfólu m.a. í sér 1 meistartitill og 1 bikarmeistartitill og endaði liðið aldrei neðar en í 3.sæti, ef undanskilið er síðasta árið að sjálfsögðu. Til gamans má geta að ef ég man rétt þá var Teitur nokkur Þórðarson fyrrum þjálfari Brann í Noregi eitthvað viðloðandi annaðhvort Nancy, en ég hygg þó fremur Monaco á þeim tíma sem Wenger var þar. Fann þó ekki neinar heimildir til að negla það svart á hvítu.

Þjálfari: Japan
Eftir að hafa verið rekinn frá Monaco kom Wenger mörgum á óvart með því að taka tilboði frá japanska liðinu Nagoya Grampus Eight. Grampus hafði gengið bölvanlega er Wenger kom til skjalanna og var í þriðja neðsta sæti í hinni japönsku J-League. Liðið rauk þó brátt upp töflunna og endaði tímabilið 1995 í öðru sæti, og Arsene Wenger var valinn þjálfari ársins. Árið eftir stýrði hann svo liðinu til sigurs í Japanska keisabikarnum (Emperor’s Cup) og Japanska ofurbikarnum (Japanese Super Cup). Ekki slæmt fyrir lið sem hafði barist fyrir lífi sínu í deildinni ári áður. Arsene Wenger staldraði þó ekki mjög lengi við í Japan því um haustið 1996, barst símtal frá Highbury. Á línunni var David Dein stjórnarformaður Arsenal…

Þjálfari: England
Arsenal liðið á þessum tíma var dálítið eins og fiskur á þurru landi og hafði ekki fundið sér almennilegan þjálfara síðan George Graham yfirgaf Highbury. Bruce Rioch fyrrverandi aðstoðarþjálfari stjórnaði liðinu og stóð sig í sjálfu sér ágætlega en menn höfðu meiri metnað en sem því nam. Þannig vildi það því til að þeim tóksta að grafa upp besta geymda leyndarmálið í alþjóðaknattspyrnu, franska hagfræðinginn Arsene Wenger sem var að þjálfa einhvers staðar í Japan. Arsene Wenger tók, sem betur fer fyrir enska knattspyrnu, tilboði Arsenal um að taka við þjálfun liðsins, en setti það raunar sem skilyrði að keyptir yrðu tveir Frakkar sem honum leist vel á, annar þeirra hét Remi Garde og gerði svo sem aldrei neinar rósir á Englandi, en hinn hét Patrick Vieira og var að spila með varaliðið AC Milan, fékkst hann þaðan fyrir litlar 3,5M. Fljótlega fylgdu svo fleiri kaup í kjölfarir og var snemma ljóst að Wenger ætlaði ekki að fara að eyða morðfjár í enska leikmenn þegar hann gæti fengið jafngóða eða betri leikmenn á mun minni pening frá meginlandinu. Menn eins og Emmanuel Petit, sem var um þessar mundir ekki fastamaður í franska landsliðinu, kom frá – auðvitað Monaco, Marc Overmars kom frá Ajax fyrir einungis 7,5M ef ég man rétt og vilja margir meina að Wenger hafi þar bjargað ferli Hollendingsins sem hafði verið í mikilli lægð. Síðan muna auðvitað allir hvernig Arsene Wenger stal vandræðabarninu Nicolas Anelka fyrir framan augun á forráðarmönnum Paris St.Germain fyrir nánast engan pening. Einnig hóf Wenger að losa Arsenal liðið við ruslleikmenn eins og Steve Morrow, Ian Selley, David Hiller, John Jensen, Glenn Helder, Pal Lyderson(!!!) og fleiri sem unnið höfðu að því hörðum höndum að gera miðju Arsenal þá verstu í deildinni. Einnig tókst honum að þurrka þá Bakkusbræður Tony Adams og Paul Merson og telja allri hinni aldagömlu vörn liðsins trú um að þeir væru kornungir stórkostlegir varnarmenn sem ættu fjölmörg ár eftir meðal þeirra bestu. Þá eru ótaldar þær breytingar sem hann kom til leiða utanvallar, á aðstæðum liðsins og hugarfari. Árangur liðsins lét ekki á sér standa og á fyrsta tímabili liðsins undir stjórn Wenger endaði liðið í þriðja sæti eftir að hafa leitt um tíma og misst naumlega af öðru sætinu á lokasprettinum.
Tímabilið á eftir var svo kominn tími til stórafreka. Liðið spilaði frábærlega, sérstaklega á lokasprettinum þegar það vann m.a. 10 leiki í röð, og endaði á toppi deildarinnar. Fyrsti meistaratitill liðsins frá 1991. Ennfremur varð liðið bikarmeistari eftir 2-0 sigur á Newcastle þar sem Marc Overmars og Nicolas Anelka skoruðu mörkin. Wenger var svo í kjölfarið valinn þjálfari ársins 1998. Hverjar gagnrýnisraddir sem kunna að hafa verið uppi þögnuðu snarlega. Eftir HM’98 þar sem Frakkar sigruðu glæsilega á heimavelli gerði Wengers svo kaup sem margir telja hans bestu hingað til, en þá keypti hann gamlan lærisvein, Thierry Henry, á aðeins 9M (ef ég man rétt), en hann var um þær mundir að rotna á kantinum hjá Juventus. Til að gera langa sögu stutta endaði Arsenal þrjú næstu árin í öðru sæti á eftir frábæru liðið Manchester United. Liðið komst í úrslit UEFA Cup árið 2000 en tapaði á Parken í Kaupmannahöfn eftir vítaspyrnukeppni við tyrknesku hundana í Galatasaray. Árið 2001 tapaði Arsenal svo fyrir Micheal Owen og félögum í Liverpool 2-1 á Þúsaldarleikvanginum í Cardiff. Svíinn stórkostlegi, Frederik Ljungberg, sem Wenger hafði keypt óþekktan frá Halmstad í Svíþjóð, kom Arsenal yfir en Michael Owen skoraði tvö mörk á síðustu 10 mínútum leiksins og færði bikarinn yfir í Bítlaborgina. Sama ár komst Arsenal í 8 – liða úrslit Meistaradeildarinnar en var slegið út fyrir silfurliðinu Valencia. Árin 1999 og 2000 vann liðið að auki Góðgerðarskjöldinn skemmtilega. Árið 2002 var svo frábært ár fyrir Arsenal aðdáendur, en í annað sinn vann liðið tvöfalt. Nú höfðu bæst í hópinn snjallir leikmenn eins og Robert Pires, Sylvain Wiltord, Giovanni van Bronchorst og Sol Cambell svo einhverjir séu taldir. Liðið tryggði sér meistartitillin með sætum 1-0 sigri á Man Utd á Old Trafford þar sem Wiltord skoraði sigurmarkið. Í úrslitum bikarsins sigraði Arsenal Chelsea 2-0, með mörkum frá Ray Parlour og Freddie Ljungberg. Ekki þarf að taka fram að Arsene Wenger var valinn þjálfari ársins. Síðasta sumar hafnaði hann svo í þriðja sinn boði um að taka við franska landsliðinu en það hafði hann áður gert árið 1994, og eftir HM 1998. Í staðin kíkti hann aðeins á leikmannamarkaðinn og keypti meðal annars nýkrýndan heimsmeistara með Brasilíu, Gilberto Silva fyrir lítinn pening, og einnig Frakkann Pascal Cygan sem að margra mati er besti franski leikmaðurinn sem ekki hefur spilað landsleik.
Arsene Wenger og Arsenal hóf svo tímailið 2002-2003 með 1-0 sigri á liði Liverpool í leik um góðgerðarskjöldinn og skoraði hinn nýkeypti Gilberto Silva sigurmarkið. Þegar þetta er skrifað sitja svo lærisveinar Arsene Wenger á toppi úrvaldeildarinnar með 5 stiga forrystu á Man Utd. Arsene Wenger…what a man!