Spænska liðið Real Betis sem Jóhannes Karl Guðjónsson spilar með hefur greint frá því að enska úrvalsdeildarliðið Charlton hafi áhuga á að krækja í Jóhannes. Umboðsmaður hans hefur verið í sambandi við The Valley og fékk áhuga þeirra á því að krækja í strákinn staðfestan. Jóhannes hefur aðeins spilað inná hjá Betis í hálftíma það sem af er leiktíð og er greinilega ekki í framtíðaráætlunum Viktors Fernandez þjálfara liðsins. Hann kom til liðsins frá Waalwijk í fyrra og hefur mikinn áhuga á að fara til Englands.
Það er aldrei að vita nema að Charlton kaupi Jóhannes strax í janúar en þá opnast félagaskiptagluggi í Evrópu. Charlton hefur spilað hreint afbragðsvel að undanförnu og ef Enska úrvalsdeildin hefði hafist í Nóvember væri liðið í efsta sætinu. Þeim vantar þó mann í þá stöðu sem Jóhannes spilar, sókndjarfan miðjumann. Jóhannes er ekki eini íslendingurinn sem líklega færir sig til í næsta mánuði því Arnar Gunnlaugsson fer líklega aftur til Stoke og aðstoðar þá í botnbaráttu 1.deildar en hann hefur ekki náð að festa sig í sessi hjá Dundee Utd. í Skotlandi.