Héðan og þaðan (FH að styrkja sig o.fl) Vefsíðan Gras.is þykist hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að landsliðsmaðurinn Auðun Helgason sé á heimleið heim frá Lokeren í Belgíu. Samningi Auðuns við Lokeren var sagt upp og hefur Auðun skv. heimildum í hyggju að stofna fyrirtæki hér á landi með umboð fyrir frönsk eðalvín. Talið er að Auðun muni skrifa undir hjá FH öðrum hvorum megin við áramót og er ljóst að Hafnarfjarðarliðið er hér að fá gríðarlegan styrk fyrir komandi átök en FH missti einmitt varnarmanninn Hilmar Björnsson til KR. Auðun er uppalinn FH-ingur 28 ára gamall og gekk til liðs við Viking í Noregi 1998 en fór þaðan til Lokeren.

Þá hefur Hermann Albertsson úr Leifri/Dalvík gert 2 ára samning við FH. Hermann sem er 19 ára þykir mikið efni en hann getur spilað bæði í vörn og á miðju. Hann lék 15 leiki með Leiftri/Dalvík í 1.deildinni í sumar og skoraði 3 mörk. Sóknarmaðurinn Tómas Ingi Tómasson er einnig að öllum líkindum á leið til FH.
_______________________

Eiður Smári Guðjohnsen er ekki á leið frá Chelsea þrátt fyrir þrálátar sögusagnir um annað. Nýjasta slúðrið var á ManUtd.is en Eiður var þá sagður hafa gert leynilegt samkomulag um að ganga í raðir félagsins í janúar og var sagt að hann myndi spila í treyju númer 14.
_______________________

Lee Sharpe ákveðið að fresta för sinni til Íslands að líta á aðstæður hjá Grindavík en til greina kemur að hann leiki þar í sumar. Förinni frestar hann framyfir áramót en forráðamenn Grindavíkur fullyrða að áhuginn sé enn sá sami og áður. Fréttamenn BBC hafa fjallað um málið og er mjög fyndið að kíkja á það. Sérstaklega myndina frá Íslandi sem er helvíti fyndin:
http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/25863 15.stm
_______________________

Skotar hafa náð Íslandi á styrkleikalista FIFA. Íslenska liðið fellur niður um tvö sæti frá síðasta mánuði, situr nú í 58. sæti ásamt Skotum sem hafa verið á eftir okkur í talsverðan tíma. Ísland hefur nú fallið niður um 6 sæti síðan í desember í fyrra.
_______________________

Fylkir og Grindavík mættust á þriðjudag í Egilshöll en þetta er leikur í æfingamóti. Fylkir vann öruggan 3-0 sigur. Steingrímur Jóhannesson skoraði 2 mörk og vararmaðurinn Þórhallur Dan Jóhannsson bætti við skemmtilegu marki undir lokin. Fylkir er þar með komið í úrslit og mætir ÍA eða Fram en þau leika klukkan 20:00 í kvöld í Egilshöllinni. Úrslitaleikurinn verður síðan kl.12:00 á laugardag.

Hér eru annars nokkur úrslit úr vináttuleikjum:
Fylkir - Grindavík 3-0
Keflavík - FH 5-2
Afturelding - Fjölnir 3-3