Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum sem fylgist með fótbolta að KR hefur sagt upp samningi sínum við Guðmund Benediktsson en hann átti að renna út eftir eitt ár. Samningar náðust ekki um að Gummi myndi taka á sig launalækkun og því fór sem fór. Gummi sem hefur verið á mála hjá KR síðan 1995 fór á föstudag í enn eina aðgerðina en hann hefur lengstum átt við þrálát hnémeiðsli að stríða. Málinu er ekki lokið hér með því Guðmundur leitar nú réttar síns og finnst illa að sér veigið.
Hann er ekki sá eini sem hefur yfirgefið KR seinustu daga því varnarmaðurinn sterki Tryggvi Bjarnason hefur yfirgefið Vesturbæjarveldið og gengið til liðs við ÍBV. Tryggvi sem er 19 ára átti við meiðsli að stríða frameftir sumri og lék aðeins 3 leiki en fyrir tveimur árum lék hann 13 leiki með KR. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við Eyjamenn sem ekki veitir af liðsstyrknum því Hlynur Stefánsson er hættur og Kjartan Antonsson farinn til Fylkis. ÍBV hefur verið að endurnýja samning við ýmsa leikmenn og er að koma góð mynd á leikmannahóp þeirra.