Varnarmaðurinn sterki Ómar Valdimarsson sem leikið með Fylkismönnum undanfarin ár hefur gert samkomulag við sitt gamla félag, Selfoss, um að ganga til liðs við félagið. Jafnframt því að leika með liðinu mun hann verða aðstoðarmaður Kristins Björnssonar þjálfara. Ómar er 32 ára gamall og á að baki 53 leiki með Fylkismönnum í efstu deild en hann hefur átt við erfið meiðsli að stríða og ákvað hann því að færa sig í auðveldari deild. Það er ljóst að Ómar verður Selfyssingum góður liðsstyrkur í 2. deildinni á komandi sumri en mikill hugur er í Selfyssingum sem urðu í fimmta sæti í deildinni á síðustu leiktíð.
Það er hlutverk hins unga Kjartans Antonssonar að fylla skarð Ómars en hann gekk til liðs við Fylki frá ÍBV í byrjun Október. Fyrir stuttu skrifaði Ólafur Páll Snorrason undir 2ja ára samning við Fylki. Ólafur Páll spilaði með Stjörnunni í Garðabæ síðastliðið keppnistímabil en var þar áður með Guðna Bergssyni og félögum í Bolton. Ólafur Páll er góð viðbót við sterkan leikmannahóp Fylkis og verður spennandi að fylgjast með honum í appelsínugum búning.