Willum Þór Þórsson þjálfari KR var kjörinn þjálfari ársins í Símadeild karla af þjálfurum liðanna í deildinni. Willum er fæddur 1963, lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1983 og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1987 og fór þá til Danmerkur og lauk meistaragráðu í Hagfræði frá Verslunarháskólanum í Kaupmannahöfn. Willum Þór hefur lokið öllum stigum KSÍ í knattspyrnuþjálfun, síðast E stigi KSÍ 1999. Willum Þór hóf þjálfaraferil sinn 1986 sem aðstoðarþjálfari 3. flokks KR. Willum Þór lék með KR, Breiðablik, Þrótti og Haukum, auk þess að þjálfa tvö þau síðast töldu. Árin 1996-1999 þjálfaði Willum Þrótt og síðan Hauka frá 1999-2001. Willum tók síðan við KR í fyrra. Willum er fyrsti knattspyrnuþjálfarinn sem nær þeim einstaka árangri að vinna Íslandsmeistaratitil í öllum deildum.
Með honum á myndinni er Valdimar Pálsson sem kjörinn var þjálfari ársins í efstu deild kvenna. Valdimar er 34 ára og spilaði knattspyrnu með Þór Akureyri, Dalvík, Val, Þrótti og Létti. Valdimar byrjaði að þjálfa 1991 er hann þjálfaði 6. flokk karla hjá Dalvík. 1991 þjálfaði Valdimar mfl. kvenna hjá Dalvík. Frá 1996 til 2000 þjálfaði Valdimar Létti í Reykjavík auk þess að leika með liðinu. Valdimar þjálfaði og lék með Magna frá Grenivík 2001, auk þess að þjálfa yngri flokka Magna. Í sumar þjálfaði Valdimar sameiginlegt lið Þórs/KA/KS í Símadeild kvenna sem náði besta árangri í sögu félagsins undir stjórn Valdimars í sumar. Valdimar hefur lokið 1. og 2. stigi KSÍ í knattspyrnuþjálfun.