
Roma og Juventus mættust í stórleik 12. umferðar en honum lyktaði með 2-2 jafntefli. Francesco Totti og Antonio Cassano komu Roma í 2-0 skömmu fyrir hálfleik en Alessandro Del Piero minnkaði muninn í 2-1 rétt áður en flautað var til hálfleiks. Leikurinn leystist upp í vitleysu á 86. mínútu þegar Vincent Candela og Francesco Totti voru reknir af velli með rauða spjaldið og svo skömmu síðar fékk Alessandro Birindelli hjá Juventus einnig að líta rauða spjaldið.
Það er nokkuð víst að Fabio Cappello stjóri Roma á eftir að láta enn frekar í sér heyra hvað varðar dómgæsluna í ítölsku deildinni en hann gekk svo langt á dögunum að hóta því að draga Roma úr deildarkeppninni þar sem hann telur dómara í deildinni nánast leggja liðið í einelti.
En annars voru úrslitin þessi.
Atalanta tapaði 0-2 á heimavelli fyrir Perugia.
Bologna sigraði Modena örugglega 3-0 á heimavelli.
Empoli gerði óvænt jafntefli við Milan 1-1.
Inter Milan sigraði Brescia 4-0 á heimavelli þar sem Christian Vieri fór á kostum.
Piacenza tapaði naumlega fyrir Lazio á heimavelli 2-3 þar sem Lazio-menn skoruðu á 90. mínútu.
Torino tapaði stórt á heimavelli fyrir Parma 0-4.
Roma og Juventus gerðu síðan 2-2 jafntefli.
Reggina gerði einnig jafntefli við Chievo 1-1.