Jæja, nú er Meistaradeildin komin vel af stað og línur farnar að skýrast eilítið. Það sem hefur sennilega vakið mesta athygli hingað til er endurreisn ítalskra liða og hygg ég að flestir fagni því. Ítölsku liðin settu met um daginn þegar fjögur lið frá Ítalíu tryggðu sig áfram úr fyrri riðlunum. Spænsku liðin létu ekki sitt eftir liggja og jöfnuðu metið sólarhring síðar þegar il Real, Barcelona, Valencia og Deportivo tryggðu sig áfram (Barcelona, Real og Valencia voru raunar örugg áfram fyrir síðustu umferðina). Ensku liðin stóðu sig einnig frábærlega þar sem il Manchester, Arsenal og Newcastle náðu að komast áfram, en Liverpool sat eftir með sárt ennið eftir ótrúlegan lokaleik gegn Basel frá Sviss. Einnig má nefna að þýsku liðin eru tvö, en það sem kom kannski mest á óvart var að il Bayern datt úr leik og komst ekki einu sinni í UEFA-cup, sem er auðvitað skelfileg niðurstaða fyrir þetta stórveldi. Borussia Dortmund og Leverkusen komust þó áfram og spái ég því að Borussia muni ná langt. Riðlarnir í seinni hlutanum eru fyrir vikið afar sterkir og er nokkuð til í þeim orðum Wengers að það séu mistök hjá UEFA að ætla sér að breyta fyrirkomulaginu á Meistaradeildinni á næsta ári, því núna loksins eru komnir þessi súperriðlar sem forráðamenn UEFA höfðu vonast eftir að sjá þegar þeir komu núverandi fyrirkomulagi á.

Ég ætla nú að gerast svo djarfur að spá fyrir um úrslit allra riðlanna, vona ég að eitthvað sannleikskorn leynist í því sem hér fylgir:

A riðill
Inter
Barcelona
Bayer Leverkusen
Newcastle

Fyrsta umferðin í þessum riðli gefur tóninn, Barcelona fór í heimsókn til Leverkusen og vann 1-2 sigur. Kannski ekki sanngjarn sigur, en sigur engu að síður og er Barcelona nú búið að vinna 9 sigra í röð í Meistaradeildinni, sem nálgast það að vera met. Leverkusen eru ósköp einfaldlega ekki jafn sterkir og þeir voru í fyrra - að missa Ballack og Ze Roberto er einfaldlega of mikið og tel ég þá því ekki eiga möguleika lengur.

Inter gerði frábæra ferð til Newcastle, þar sem þeir unnu 1-4 sigur. Hefur ítalskt lið aldrei skorað jafn mörg mörk á enskri grundu í einum og sama leiknum. Newcastle spilaði síðustu 3 leikina í fyrri riðlakeppninni með hjartanu og engu öðru. Tókst þeim að vinna þá alla og komast áfram sem er einsdæmi eftir jafn slæma byrjun, þrjú töp i röð. En í leiknum gegn Inter skiptu þeir yfir í Hara-kiri Newcastle (nafnbót sem Inter fékk eftir hinn örlagaríka 5. maí síðastliðinn) og voru sjálfum sér verstir. Inter skoraði á 2. mínútu og Bellamy lamdi Materazzi (sem var ekki saklaus af þessum átökum) með þeim afleiðingum að hann var rekinn útaf og fékk þriggja leikja bann. Shearer lét svo góðan varnarleik Fabios Cannavaros fara í taugarnar á sér og gaf honum olnbogaskot sem leiddi ekki til brottreksturs, en tveggja leikja banns engu að síður. 4-1 tap á heimavelli og tveir fyrstu sóknarmennirnir komnir í löng bönn þýðir að draumurinn hjá Magpies er úti. Ef Inter forðast að vera sjálfum sér verstir fara þeir upp úr riðlinum af öryggi, ásamt Barcelona einsog áður var nefnt.

B riðill
Arsenal
Valencia
Ajax
Roma

Hérna líta Arsenalmenn vel út, 1-3 sigur gegn Roma í 1. umferð segir allt sem segja þarf. Leikurinn sjálfur var skemmtilega leikinn og voru Rómverjar síður en svo heppnir. Sköllótti varnarmaðurinn Pascal Cygan bjargaði á ótrúlegan hátt á línu og Roma átti klárlega að fá víti þegar Guigou var tekinn niður í teignum (á Soccernet var þessu lýst svona: “Guigou has only Shaaban to beat and the keeper brings him down in the box. Surely a penalty this time……”). En heppnin er alls ekki með Roma þetta haustið og -9 stig á toppliðin í Serie A segir nóg um ástandið þar á bæ. Henry tók svo til sinna ráða seinni partinn í leiknum og kláraði dæmið. Góður leikur hjá honum, en í 2. markinu var hreinlega um poor defencing að ræða hjá hinum misjafna Christian Panucci. Valencia ætti að komast áfram þrátt fyrir hikst í 1. leik gegn Ajax á heimavelli. Í hinu óvandaða íþróttblaði Morgunblaðsins var reyndar stórkostlega ranghermt þegar sagt var að Valencia hafi aldrei tapað á heimavelli í Evrópukeppni því það eru ekki meira en 7 mánuðir síðan þeir töpuðu fyrir Inter í 8 liða úrslitum UEFA keppninnar, þar sem Franco Farinos miðjumaður Inter og fyrrverandi leikmaður Valencia lék síðustu 20 mínúturnar í markinu. Ajax gæti átt möguleika á að komast áfram, en ég tel það þó ólíklegt og reikna með að Arsenal og Valencia taki þetta. Því miður er ég þar með að spá Roma útúr keppninni, en þeir eru einfaldlega ekki nógu góðir þetta árið og alltof mikið af internal vandamálum eru að plaga þá; Pep Guardiola, Batigol, Cassano, Montella og Delvecchio óánægðir með að vera ekki alltaf inná og Totti og fleiri óánægðir með starfshætti Capellos. Ef pabbanum Aldair og hinum Capello-holla Panucci tekst ekki að lægja öldurnar er þetta búið spil hjá Roma.

C riðill
Milan
Real Madrid
Lokomotiv Moskva
Borussia Dortmund

Milan byrjaði keppnina frábærlega í haust og slátraði il Bayern og Deportivo auk Lens. Voru þeir búnir að tryggja sig áfram eftir einungis 4 leiki í riðlinum sem var óumdeilanlega sá sterkasti í fyrri partinum. Eftir það kom smá hlé á góðu gengi hjá þeim, tap gegn Chievo og Juve í Serie A og auk töpum gegn Lens og Deportivo í Meistaradeildinni. En Ancelotti sneri sér þá í il turnover og fór að hvíla lykilmenn annað reglulega. Þeir leikmenn sem hafa breytt Milan í það sem þeir eru akkúrat núna eru óumdeilanlega Manuel Rui Costa og ítalinn ungi Andrea Pirlo. Um hæfileika Rui Costa þarf enginn að efast en Pirlo er il rivoluzione í þessu liði, Ancelotti sýndi mikinn kjark þegar hann ákvað að láta hann spila fyrir framan varnarmennina í böðulsstöðunni. Pirlo hefur spilað frábærlega þar og hafa margar glæsisendingar hans, eftir að hafa unnið boltann á miðjunni, skilað mörkum. Eina sem hægt er að setja út á Milanliðið er hárgreiðsla leikmanna, sítt hár er boðorð dagsins og er Dario Simic meira að segja farinn að safna hári eftir mörg stuttklippt ár hjá Inter. Real Madrid virka ekki eins sterkir og þeir hafa verið. Ronaldo er ekki enn kominn í gang, þrátt fyrir tvö mörk í 1. leiknum sínum. Zidane stendur kannski fyrir sínu, en Luis Figo virkar einfaldlega alltof þungur og vottar ekki fyrir leikgleði hjá honum sem kristallast í sífelldu nöldri í dómurunum. Töp gegn Roma á heimavelli og Milan úti, auk slaks gengis í deildinni hjálpa lítið uppá. Vil ég hér með gerast svo grófur að spá því að Borussia Dortmund, undir stjórn hins klára Matthias Sammer fari áfram á kostnað il Real. Dortmund hefur á frábæru liði að skipa, þar sem Tékkarnir Rosicky og Köller spila mikilvæga rullu auk Amoroso hins brasilíska og Reuters og nokkurra annarra eðal-Þjóðverja. Um Lokomotiv Moskvu þarf ekki að fjölyrða, en þó er óhætt að spá fyrirliða þeirra góðum frama, en hver veit hvað hann heitir?

D riðill
Juventus
Manchester United
Basel
Deportivo la Coruna

Fyrsti leikurinn í þessum riðli, Deportivo - Juventus segir allt, þarna verður hart barist og sveiflur verða miklar. Basel komast aldrei áfram þannig að þetta verður barátta þriggja liða. Juve eru mjög traustir, ekki búnir að tapa leik í ítölsku deildinni og virðast alltaf hafa nóg til að gera það sem gera þarf. Deportivo eru mjög sterkir og sýndu að þeir hafa sterkar taugar þegar þeir tryggðu sig áfram úr fyrri riðlinum með sigrum í tveimur síðustu leikjunum, gegn Bayern Munchen á heimavelli og Milan úti. Il Manchester sýndi einnig styrk sinn í fyrri riðlunum með því að verða efstir og vera búnir að tryggja sig áfram þegar keppnin var ríflega hálfnuð. Ýmsir hafa þóst sjá þreytumerki á hópnum hjá þeim og er það kannski tímanna tákn að menn vonast eftir því að Gary Neville sé meiddur því þá fái hinn ungi John O´Shea að spila. Wes Brown er þó að koma úr langvinnum meiðslum og með tilkomu hans eykst breiddin í vörninni. Á miðjunni hafa þeir ekki átt sjö dagana sæla því Keane hefur lítið sem ekkert spilað og Nicky Butt hefur einnig verið frá (loksins er hans saknað), hefur þetta leitt til þess að yngri slefarinn hefur verið að spila á miðjunni og hefur hann merkilegt nokk staðið sig ágætlega. Giggs, Scholes, Beckham og Nistelroy sjá þó til þess að liðið hefur ákveðinn klassa og þegar þeir endurheimta Butt og sérstaklega Keane verða þeir erfiðir viðureignar. Einnig hefur Veron allur verið að koma til og skorar nú mörk öðru hvoru, á milli þess sem hann reynir að eiga síðustu sendinguna. Helsti veikleiki þeirra er þó skortur á breidd í sókninni, fyrirsætan Diego Forlan er varla boðlegur í svona liði og Solskjaer er farinn að eldast, án Nistelroys skora þeir ekki mikið gegn sterkustu liðum álfunnar. Juve eru svo einsog áður sagði óhemju traustir, Del Piero hefur sennilega aldrei spilað betur og Davids er að nálgast fyrri styrk. Nýju mennirnir Camoranesi og Di Vaio hafa svo komið sterkir inn og David Trezeguet, markakóngur Serie A í fyrra, er að koma úr meiðslum og mun innkoma hans ekki veikja liðið. Um Basel þarf ekki að hafa mörg orð, þeir hljóta að vera mettir og munu sennilega ekki vinna leik, enda er Spartak Moskva dottið úr leik. Ég treysti mér ekki til að spá hverjir fara upp úr þessum riðli, en til að segja eitthvað hallast ég að því að Deportivo sitji eftir með sárt ennið.

kveðja,

IlMago