
Ísland var sterkari aðilinn framan af síðari hálfleik og átti nokkur ágæt markskot. Þórður Guðjónsson það besta þegar hann reyndi að lyfta yfir Mart Poom af 20 metra færi en Poom náði að verja. Það var síðan Eistland sem náði forystunni á 75. mínútu, nokkrum sekúndum eftir þrefalda skiptingu Íslands. Kristen Viikmäe slapp inn í vítateig Íslands og skoraði með góðu skoti, framhjá Birki Kristinssyni sem nýkominn var inná. Úlfurinn Ívar Ingimarsson fékk gott færi til að jafna á 80. mínútu en skallaði rétt framhjá marki Eistlands af markteig. Reiðarslagið kom svo á 85.mínútu þegar Andreas Oper kom Eistlandi í 2-0. Það urðu síðan lokatölur leiksins. Íslenska liðið átti 10 markskot í leiknum en Eistar 5. Ísland fékk 4 hornspyrnur en Eistland 2.
Íslenska landsliðið í knattspyrnu er í 56. sæti á nýjum styrkleikalista FIFA sem gefinn var út í dag og er þetta sama sæti og Íslendingar voru í fyrir mánuði síðan. Þeir komast þó ekki mikið hærra á listanum eftir úrslit dagsins.